Hærri laun með að skipta oft um vinnu

Meðalhækkun þegar fólk skiptir um vinnu í Bandaríkjunum er á …
Meðalhækkun þegar fólk skiptir um vinnu í Bandaríkjunum er á milli 10 og 20%. Á sama tíma er almenn launahækkun kringum 3%. AFP

Með því að skipta reglulega um vinnustað geta starfsmenn hækkað umtalsvert í launum og á heilli starfsævi getur þetta munað allt að helmingi. Þessu fylgja þó líka vandamál, en ferilskrá með miklum fjölda vinnustaða getur skaðað starfsumsókn. Til að hámarka launakjör, en koma einnig vel út á ferilskránni þarf því að finna einhvern gullin meðalveg þarna á milli. Þetta kemur fram í grein á vef Forbes, en þar er sagt að þetta sé verst geymda leyndarmál starfsmannamarkaðarins.

Samkvæmt hagstofu Bandaríkjanna er gert ráð fyrir að meðallaunahækkun þar í landi á þessu ári verði um 3%. Jafnvel slakir starfsmenn geta gert ráð fyrir 1,3% hækkun og góðir starfsmenn um 4,5%. Miðað við verðbólgu upp á 2,1% er því um minna en 1% hækkun fyrir meðalstarfsmann að ræða.

Skipti starfsmenn aftur á móti um vinnustað geta þeir að meðaltali gert ráð fyrir hækkun launa upp á 10 til 20% og í sérstökum tilfellum um allt að 50%. Í greininni er gert ráð fyrir að viðkomandi starfsmaður vinni aðeins í 10 ár á sérhæfðum markaði og er því hækkunin tæplega 50% yfir þann tíma, eða um 33% hærri en hjá þeim sem aðeins fá almennar hækkanir. Sé starfsævin 20 ár er hækkunin aftur á móti 130% í stað 30% með almennri hækkun. 

Þetta er þó ekki alveg jafn augljóst og það hljómar, því með því að skipta reglulega um vinnu getur orðið erfiðara að fá gott starf næst, en í grein Forbes er haft eftir starfsráðgjöfum að sum fyrirtæki taki ekki við umsóknum ef viðkomandi hefur verið á fleiri en þremur vinnustöðum á síðustu 10 árum. Þrátt fyrir það ráðleggja mörg starfsráðgjafarfyrirtæki fólki að skipta um vinnu á 3-4 ára fresti til þess að hækka reglulega í launum.

Spurningin er því ekki hvort starfsmenn eigi að skipta um vinnu, segir í greininni, heldur hversu langt þeir eiga að láta líða á milli þess að færa sig um set. Þess ber þó að geta að auðvitað eru fleiri þættir sem ráða vali starfsmanna á vinnustað og er erfitt að mæla í útborguðum launum, svo sem ánægja á vinnustað, hversu áhugaverð vinnan er o.s.frv.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK