Frakkar hafa sett ný lög sem eiga að miða að því að hjálpa litlum bókabúðum í samkeppninni gegn vefbókasölum á borð við Amazon.com. Lögin voru samþykkt á þinginu á fimmtudaginn. Gera þau meðal annars bókabúðum óheimilt að bjóða upp á ókeypis heimsendingu á bókum sem seldar eru með afslætti líkt og Amazon.com hefur boðið upp á.
Lögin sem sett voru eru viðbót við hin svokölluðu Lange-lög frá árinu 1982. Með þeim lögum var lágmarksverð á bókum lögfest til þess að hjálpa litlum bóksölum.
Önnur ríki í Evrópu hafa einnig sett svipuð lög til þess að vernda innlenda markaðsaðila, meðal annars Ítalía, Portúgal, Spánn og Þýskaland.
Áður hafa Frakkar sett lög til þess að vernda innlenda sjónvarps- og kvikmyndaframleiðslu gegn samkeppni frá Netflix.
Sjá frétt Salon.com