Eiginfjárstaða heimila hefur farið stöðugt batnandi undanfarið, en á árunum 2011 og 2012 fækkaði heimilum með neikvæða stöðu í fasteign úr rúmlega 25 þúsund í tæplega 18 þúsund, auk þess sem meðalstaða þeirra batnaði umtalsvert. Nýjar tölur um eiginfjárstöðu íslenskra heimila á árinu 2013 koma til með að birtast á síðari hluta ársins, en þær munu að öllum líkindum sýna áframhaldandi bata, enda hækkaði fasteignaverð umtalsvert umfram verðlag á árinu 2013. Þetta kemur fram í Markaðspunktum greiningardeildar Arion banka í dag.
Segir þar að þakka megi þetta bæði árangri af aðgerðum stjórnvalda í þágu skuldsettra heimila og hækkun íbúðaverðs umfram verðlag, sem hefur tilhneigingu til þess að bæta eiginfjárstöðu. Til viðbótar er mögulegt að einhver heimili hafi lokið skuldauppgjöri með gjaldþrotameðferð og þannig hætt að mælast með neikvæða eiginfjárstöðu.
Greiningardeildin segir að það séu einkum fasteignakaupendur sem festu kaup á eignum á árabilinu 2005 til 2008 sem gætu búist við að vera enn með neikvæða stöðu í fasteign sinni. Þeir sem skuldsettu sig undir 80% eru þó almennt ekki með neikvæða stöðu í dag nema þeir hafi keypt á hæsta tindi bólunnar rétt sitthvoru megin við áramótin 2007-2008.
Hinsvegar hversu mikil áhrif lánaskilmálar geta haft á stöðu og eignamyndun fasteignaeiganda, en kaupendur sem fjármögnuðu fasteignakaup með 25 ára lánstíma eru að jafnaði í jafngóðri eða betri stöðu en þeir sem tóku 40 ára lán með 10% meira veðrými vegna örari eignamyndunar.