Áhrif fríverslunarsamnings Íslands og Kína, sem tók gildi í gær, gætu orðið takmörkuð þegar kemur að innflutningi á fatnaði. Hagsmunasamtök verslunar hafa lengi bent á að meirihluti þess fatnaðar sem fluttur er inn til Íslands sé í raun tvítollaður, bæði þegar hann er fluttur inn til ESB-ríkja og svo aftur þegar hann er fluttur þaðan til Íslands. Erfitt er að fá beinan flutning til Íslands þar sem kínverskir framleiðendur horfa fram hjá minni kaupendum.
Í nýja fríverslunarsamningnum er skilmerkilega tekið fram að niðurfelling tolla miðist ekki við upprunaland, heldur þegar vara er flutt beint til landsins frá Kína, með þeirri undantekningu að hægt er að umskipa henni á frísvæðum.
Um getur verið að ræða umtalsverðar upphæðir, því almennt er tollur á fatnað um 15% þegar hann er fluttur til ESB-ríkja og svo aftur 15% þegar hann er fluttur til Íslands.
Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, segir í samtali við mbl.is að æskilegt hefði verið að upprunalandið hefði gilt í þessu samhengi. Sagði hann ljóst að áfram verði töluvert um tvítollun, þrátt fyrir að varan sé framleidd í Kína. Árið 2012 sögðu Samtök atvinnulífsins frá því að allt að 80% af fatnaði sem seldur væri hérlendis væri tvítollaður.
Ólíklegt er að stórir birgjar í Evrópu séu til í að gera miklar breytingar á tollafgreiðslukerfi sínu til að koma Íslendingum hjá tvítollun, en Ísland er mjög lítill markaður í stóra samhenginu. Andrés segir að ef horft væri til upprunalandsins hefðu íslenskar verslanir komist hjá tollum hingað til lands, en áfram hefðu flestir þurft að greiða tollinn inn í ESB-löndin, þaðan sem vörurnar eru vanalega áframsendar til Íslands.
Andrés segir að því þurfi verslanir og birgjar í auknum mæli að horfa til þess að reyna að kaupa vörur beint frá Kína eða semja um að þær fari bara um fríverslunarsvæði, en séu ekki tollafgreiddar inn í ESB-lönd. „Vandamálið í sambandi við Kína er að þeir vilja bara stórar sendingar,“ segir Andrés aftur á móti.
Lausnin á þessu liggur að hans mati í því að skipafélög fari að bjóða safnsendingar, þar sem minni kaupendur geti safnað saman í gáma í Kína sem svo séu sendir beint til Íslands og ekki tollafgreiddir á leiðinni.