Vöruverð 12% hærra hér en í ESB

mbl.is/Hjörtur

Verð á neysluvöru og þjónustu hér á landi var 12% hærra en það var að meðaltali innan ESB-ríkjanna á síðastliðnu ári samkvæmt upplýsingum sem Hagstofa Evrópusambandsins (Eurostat) hefur birt.

Hefur landið orðið dýrara í þessum samanburði samhliða uppsveiflunni sem hér hefur verið í efnahagslífinu undanfarin ár, segir í Morgunkorni Íslandsbanka.

Miklu dýrara í Skandinavíu

„Hefur það fylgt raungengi krónunnar sem hefur verið að hækka frá árinu 2009 þegar verð á vöru og þjónustu hér á landi fór niður í meðaltal ESB-ríkjanna. Raungengi krónunnar hefur á fyrstu fimm mánuðum þessa árs verið 8,7% hærra en það var á sama tímabili í fyrra. Miðað við það hefur verð á vöru og þjónustu hækkað enn meira yfir meðaltal ESB-ríkjanna á þeim tíma. Haldist nafngengi krónunnar nálægt núverandi gildi út árið og verði verðbólguþróun í takt við okkar spá er við því að búast að verð á neysluvöru og þjónustu verði um 20% hærra en það er að jafnaði innan ESB-ríkjanna í ár. 

Þrátt fyrir að verð á vöru og þjónustu sé hærra hér á landi en í ESB ríkjunum, og hafi hækkað á síðustu árum í þeim samanburði, þá er það lágt m.v. það sem það var fyrir hrunið 2008. Á árinu 2007 var verð á vöru og þjónustu 49% hærra hér á landi en það var í ríkjum ESB. Þá var verð á þessum þáttum í fyrra einnig enn nokkuð lægra en á öðrum Norðurlöndum.

Dýrast er í Noregi en þar var verð á neysluvöru og þjónustu 55% yfir meðaltali ESB-ríkjanna á síðasta ári, eða m.ö.o. 38% hærra en það er hér á landi. Í Danmörku er verð 40% yfir meðaltali ESB-ríkja, í Svíþjóð 30% og 24% í Finnlandi,“ segir ennfremur í Morgunkorni.

Ferðaþjónustan 23% dýrari hér

Verð á þjónustu hótela og veitingastaða hér á landi var á síðasta ári 23% yfir því sem það var að jafnaði innan ESB-ríkjanna samkvæmt  samanburði Eurostat. Er verð þessara þátta ferðaþjónustunnar hærra í sex löndum í Evrópu af 37 í þessum samanburði.

„Meðal þeirra landa sem eru dýrari heim að sækja eru hin Norðurlöndin öll. Íslendingar eru þannig ekki hálfdrættingar á við nágranna sína í Noregi í þessari verðlagningu, en þar í landi var verð á þessum hluta ferðaþjónustunnar 89% yfir meðaltali ESB-ríkjanna í fyrra, eða m.ö.o. 54% hærra en það var hér á landi.

Eflaust skýrir það að miklu leyti af hverju ferðaþjónustan þar í landi er ekki stærri en raun ber vitni. Eftir Noregi kemur Danmörk með verð sem er 49% yfir meðaltali ESB-ríkjanna, svo Svíþjóð með 46% og síðan Finnland með 28%. Af vinsælum sumarleyfisstöðum Íslendinga má nefna að verð á þessum þáttum ferðaþjónustunnar var 91% af meðaltali ESB-ríkjanna á Spáni í fyrra, 78% á Tyrklandi og 77% í Portúgal. M.ö.o. þá var verð á hótelum og veitingastöðum 26% lægra á Spáni en það var hér á landi en 37% lægra í Portúgal,“ segir í Morgunkorni.

Munurinn á almennu verðlagi á vöru og þjónustu hér á landi og í aðildarríkjum ESB hefur aukist hægar á síðustu árum en þegar verð á hótel og veitingarekstri er skoðað sérstaklega. Þannig hefur munurinn á hótelum og veitingum farið úr tæpum 5% árið 2008 í áðurnefnd 23% í fyrra. Á sama tíma hefur munurinn á almennu verðlagi neysluvöru og þjónustu hér á landi og í ESB aukist úr 4% í 12%. Þrátt fyrir hækkunina er Ísland ódýrt heim að sækja m.v. fyrir hrun en verð á þjónustu hótela og veitingastaða stóð að meðaltali í 80% yfir meðaltali ESB-ríkjanna á tímabilinu 2004 til 2006.

Með næsthæsta verð á áfengi og tóbaki

„Ferðamenn og raunar Íslendingar líka súpa stundum hveljur yfir verði á áfengi hér á landi. Virðist það ekki vera að ástæðulausu þegar horft er í ofangreinda útreikninga Eurostat. Meðal þeirra tegunda vöru og þjónustu sem samanburður Eurostat nær til var verðmunurinn mestur á verði á áfengi og tóbaki hér á landi og í ESB-ríkjunum í fyrra. Var verð þessara vörutegunda 71% hærra hér á landi en það var að jafnaði í ríkjum ESB í fyrra. Einungis í einu ríki af þeim 37 ríkjum Evrópu sem samanburður Eurostat nær til er verð á þessum varningi hærra, og vart kemur á óvart að það land sé Noregur. Þar í landi var verð á áfengi og tóbaki 159% hærra en meðalverð þeirra í ríkjum ESB,“ samkvæmt Morgunkorni.

Einnig munar talsvert miklu þegar kemur að verði raftækja og fatnaðar hér á landi og í ríkjum ESB. Var verð raftækja 41% hærra hér á landi í fyrra en það var að meðaltali í ESB-ríkjunum og verð á fatnaði 37% hærra. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK