Þrátt fyrir að Lýsing hafi farið í gegnum 11 dómsmál í héraði og tvö í Hæstarétti þegar kemur að ágreiningi um hvort skuldari geti varist kröfu kröfuhafa um viðbótargreiðslu á þeim grundvelli að hann hafi fullnaðarkvittanir fyrir greiðslu vaxta, dregur það enn lappirnar og hefur ekki viðurkennt að dómafordæmi eigi við um öll sín mál. Þetta segir Einar Sigurðsson, lögfræðingur hjá lögfræðistofunni Gengislán, en félagið hefur höfðað rúmlega hundrað mál gegn Lýsingu fyrir skjólstæðinga sína. Segir hann að fjöldi lögfræðistofa sé með mál í gangi gegn Lýsingu og í heild séu málin örugglega vel á annað hundrað.
Á þriðjudaginn féllu tveir dómar í héraðsdómi þar sem Lýsing tapaði báðum málunum. Var Lýsingu gert að endurgreiða lántakendum viðbótavexti sem fyrirtækið hafði reiknað sér. Við endurútreikning lána í kjölfar dóms Hæstaréttar um ólögmæti gengistryggðra lána taldi Lýsing að vextir Seðlabankans ættu að gilda frá því að lánið var tekið, en ekki samningsvextir þar til lánið var dæmt ólögmætt. Héraðsdómur Reykjavíkur féllst ekki á þetta.
Af þeim málum sem hefur verið dæmt í hefur Lýsing tapað átta málum í héraði og einu máli í Hæstarétti. Lýsing var í hinu málinu fyrir Hæstarétti sýknað þar sem lántaki uppfyllti ekki nægilega eitt skilyrða þess að geta borið fyrir sig fullnaðarkvittanir, þ.e. að festa væri í viðskiptum aðila. Þar sem lántakinn hafði aðeins greitt eina afborgun af láninu var ekki talið að nægjanleg festa hefði verið í viðskiptum aðila, en að öðru leyti hafði lánið verið í skilum. Í öðrum málum, þar sem Lýsing hefur tapað hefur þetta skilyrði verið uppfyllt
Einar segir í samtali við mbl.is að aðrar lánastofnanir hafi viðurkennt fordæmi Borgarbyggðarmálsins svokallaða um gildi fullnaðarkvittana gegn kröfu um viðbótargreiðslu, en að Lýsing sé eina fyrirtækið sem dragi enn lappirnar.