Umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkur tók jákvætt í fyrirspurn Costco um að byggja sjálfsafgreiðslu fjölorkustöð á lóðinni við Korputorg, en fyrirtækið hefur sýnt áhuga á að opna verslun annaðhvort á Korputorgi eða í Kauptúni í Garðabæ.
Á fundi ráðsins í gær var ekki tekin lokaákvörðun um breytingu á deiliskipulagi, heldur var aðeins um fyrirspurn frá fyrirtækinu að ræða til að kanna hug ráðsins. Hjálmar Sveinsson, formaður skipulagsráðs, segir í samtali við mbl.is að nú sé það í höndum Costco hvort þeir ákveði að fara í vinnu við tillögu um breytt deiluskipulag á reitnum, en það þyrfti svo að leggja fyrir ráðið.
Hjálmar segir að svar ráðsins hafi verið jákvætt á þessa hugmynd, en að það væru nokkur atriði sem farið væri fram á. Meðal annars þyrfti helmingur allra dæla að vera fyrir vistvæna orku.
Ef Costco ákveður að leggja fram beiðni um breytt deiliskipulag fer það í ákveðið ferli sem tekur allavega sex vikur. Í kjölfarið þarf ráðið að fallast á breytinguna og því er allavega um eins og hálfs eða tveggja mánaða ferli að ræða, gangi allt annað upp.
Hjálmar segir að boltinn sé núna hjá Costco. „Það er í þeirra höndum hvort þeir velja Garðabæ eða Reykjavík, en manni hefur skilist að þeir séu helst að kíkja eftir þeim stöðum,“ segir Hjálmar.