Dýru þyrluferðirnar ótrúlega vinsælar

Birgir Ómar Haraldsson, forstjóri Norðurflugs.
Birgir Ómar Haraldsson, forstjóri Norðurflugs. Eggert Jóhannesson

Þrátt fyrir að ein þyrluferð geti kostað langleiðina í hálfa milljón láta ferðamenn það ekki stoppa sig í að skoða Ísland úr lofti. Birgir Ómar Haraldsson, forstjóri Norðurflugs, segir ótrúlega algengt hversu margir fari í slíkar ferðir, jafnvel þótt styttri og ódýrari ferðir séu vinsælastar. Fyrirtækið er í dag með fjórar þyrlur í rekstri og fer 10 til 20 ferðir á dag.

Norðurflug hefur frá árinu 2008 byggt upp starfsemi sína. Birgir segist meðvitaður um sveiflukenndan rekstur, áhættu vegna gengismála og breytinga í neysluhegðun ferðamanna, en að almennt gangi reksturinn þó vel. Hann segir að ekki megi horfa fram hjá því að hingað komi mjög efnaðir ferðamenn sem vilji gera sérstaka hluti og séu tilbúnir að borga vel fyrir það.

Hófu flug árið 2008

Norðurflug var stofnað árið 2006 en fékk flugrekstrarleyfi árið 2008. Birgir segir að þegar þau hófu starfsemi hafi ekki verið til pakkaferðir með þyrlum eins og eru núna töluvert algengar. Því hafi Norðurflug verið frumkvöðull í að bjóða pakkaferðir og almennt í vörusmíð ferða með þyrlum.

Fyrirtækið býður stuttar ferðir um Reykjavík og nágrenni frá 25 þúsund á manninn upp í ferðir sem kosta um og jafnvel yfir 400 þúsund krónur. Þá geta ferðamenn einnig sett saman sérstakar ferðir með allskonar sérþörfum eða þjónustu sem hæfir tilefninu.

Með fjórar vélar í rekstri í dag

Félagið var frá upphafi með þrjár þyrlur í rekstri, átta manna Dauphin, Astar fyrir fimm farþega og Bell 206 sem tekur fjóra farþega. Þá er félagið einnig með tvær þyrlur á sínum snærum sem eru í eigu Air Greenland og hafa t.a.m. verið mikið notaðar í kringum þyrluskíðarferðir á Tröllaskaga, í samstarfi við Bergmenn fjallaleiðsögumenn. Nýlega lenti þó Astar vélin í óhappi á Eyjafjallajökli og samkvæmt Birgi er ólíklegt að sú vél verði meira í þjónustu héðan í frá.

Á næstunni segir hann að horft verði til þess hvort stækka eigi flotann, en síðustu ár hefur aðallega verið horft til þess að bæta nýtingu á vélunum og vinna í markaðsstarfi. Segir Birgir að núverandi staða muni líklega duga fyrir næsta ár, en ef áfram verði viðlíka aukning og síðustu ár verði horft til þess að bæta við flotann.

Ferðamenn, kvikmyndir og skíði

Starfsemi félagsins skiptist í raun í þrjá flokka að sögn Birgis, en auk venjulegs flugs með ferðamenn og þyrluskíðun, þá komi upp fjölmörg verkefni í tengslum við kvikmyndatökur sem alltaf verði vinsælla. Það sé þó mjög breytilegt milli ára hvernig aðsóknin sé þar, en í fyrra var t.a.m. stórt ár meðan árið í ár hafi verið aðeins rólegra.

Áhættusamur bransi

Birgir segist gera sér grein fyrir því að þessi bransi sé nokkuð áhættusamur, en fyrir utan sveiflu í kvikmyndaverkefnum þá geti smá hreyfing á gengi krónunnar gert það að verkum að eftirspurn ferðamanna í þyrluferðir minnki. Segir hann að það hjálpi klárlega þessa stundina að gengið sé lágt og að ferðamenn telji þyrluflug hér ekki svo dýrt. „Við áttum okkur á því og lifum við það að gengið geti sveiflast,“ segir Birgir.

Ein mesta áskorunin á þessum markaði að sögn Birgis er sú staðreynd að fæstir sem koma í fluga hafa gert það áður og fæstir muna koma aftur. Því er um að ræða nýja upplifun fyrir fólk sem er í harðri samkeppni við aðra afþreyingu, en nokkuð dýrari. Því þurfi markaðsstarf hjá félaginu að vera nokkuð fjölbreytt og segir Birgir að allar leiðir séu notaðar, hvort sem um er að ræða netið, auglýsingar í flugvélum eða ferðaskrifstofur. Það sé engin ein leið sem dugi í þessu samhengi.

Þyrluskíðun kemur sterk inn frá mars til júní

Eins og hjá mörgum öðrum ferðaþjónustufyrirtækjum er það sumarið sem er helsti tíminn fyrir þyrluþjónustu. Birgir segir að bæði sé þá mun meira um ferðamenn og að lítið sé reynt að kvikmynda yfir vetrartímann. „Sumarið er vertíðin hjá okkur,“ segir hann, en tekur þó fram að axlirnar séu farnar að færast lengra og lengra yfir á haustið og vorið. Til dæmis komi þyrluskíðun sterk inn í mars til júní, en yfir dimmustu mánuðina sé nokkuð rólegra að gera.

Aðspurður um fjölda ferða á dag segir Birgir það misjafnt eftir lengd ferða, en að öllu jöfnu séu þetta á bilinu 10 til 20 ferðir á dag. Stuttar ferðir sem eru um Reykjavík eða upp á Hengilinn eru í um 20-40 mínútur, en lengri ferðir geta tekið allt að 5-6 klukkustundir.

Ótrúlega algengt að fólk fari í dýru ferðirnar

Birgir segir að vinsælustu ferðirnar séu jarðhitaferðir um Hellisheiði, flug um Reykjanes og ferð upp á Eyjafjallajökul. Þá sé alltaf stór hópur sem vilji fara í lengri og dýrari ferðir sem kosti um og yfir 400 þúsund krónur. „Það er ótrúlega algengt að fólk fari í löngu dýru ferðirnar,“ segir Birgir. Segir hann að margir hugsi þetta á þann veg að þeir geti tekið fimm klukkustunda ferð með þyrlu og séð Jökulsárlón, Vatnajökul og fjölda annarra staða úr lofti með nokkrum lendingum, eða þá leigt bíl og ferðast þetta á einum eða fleiri sólarhringum.

„Það er staðreynd að það er efnað fólk í þessum heimi og það er gott að það sé að koma hingað líka,“ segir Birgir. Bendir hann á að í höfninni við Reykjavík standi nú lítið skemmtiferðaskip þar sem þyrla sé á skipinu. Það séu því margir sem hafi efni á allskonar íburði. Þá segir hann að margir spari við sig í mat og gistingu til að eiga efni á dýrari afþreyingu. Þannig komi það reglulega fyrir að fólk sem gisti á hostelum komi í stórar þyrluferðir hjá þeim.

Segir hávaðatruflun vera ofmetna

Þyrluflugið er þó ekki laust við gagnrýni, en nokkuð hefur verið rætt um hávaða í kringum flug vélanna á vinsælum ferðamannastöðum og hafa jafnvel einhverjir kallað eftir að einhver takmörk verði sett á slíkt flug. Birgir segir það alveg ljóst að það heyrist í þyrlum eins og öðrum flugvélum. Aftur á móti telji hann truflunina vera töluvert ofmetna. Hann segist hafa tekið saman flug félagsins yfir Gullfoss og Geysi og segir að þyrlur almennt fari þar yfir að meðaltali einu sinni á tveggja daga fresti í um tvær til fimm mínútur.

Þá segir Birgir að ekki megi gleyma því að þótt þyrlurnar valdi hávaða séu ummerki þeirra í náttúrunni töluvert minni en t.d. á jeppum sem keyri með ferðamenn um landið. Segir hann að umhverfisstefna félagsins gangi út á að lifa í sátt við umhverfið, „en við verðum að vera til eins og aðrir,“ segir Birgir.

Minni eyðsla áhyggjuefni til framtíðar

Hjá Norðurflugi starfa um 10 manns að jafnaði, en þar af eru þrír flugmenn. Til viðbótar bætast svo að meðaltali um 2-3 flugmenn á sumrin. Birgir segir að velta fyrir tækisins hafi síðustu ár verið á bilinu 200 til 300 milljónir, en hann tekur þó fram að reksturinn sé mjög dýr. Þannig þurfi að skipta reglulega um alla hluti í þyrlum og kostnaður við hverja ferð sé nokkuð mikill.

Aðspurður um framtíðina í þyrluflugi hér á landi segist Birgir nokkuð bjartsýnn. Þó valdi það áhyggjum að ferðamenn eyði minna en áður, þó það hafi enn ekki komið niður á þyrluflugi og þá séu alltaf uppi áhyggjuþættir eins og hækkandi gengi sem geri öll langtímaáform erfið.

Birgir segir að farið sé 10-20 ferðir á dag. Þrátt …
Birgir segir að farið sé 10-20 ferðir á dag. Þrátt fyrir að styttri ferðir séu vinsælastar segir hann dýrari ferðir, sem geti jafnvel kostað langleiðina í hálfa milljón, ótrúlega vinsælar. Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK