Um 20 manns vinna í fullri vinnu erlendis að undirbúningi fyrir komu Costco til Íslands til viðbótar við þá sem fyrirtækið hefur fengið til samstarfs við sig hér á landi, svo sem lögfræðinga, fasteignasala og arkitekta. Þetta segir Guðmundur Ingvi Sigurðsson, hæstaréttarlögmaður á Lex, en hann er lögmaður fyrirtækisins hér á landi.
Þessi mikli fjöldi ýtir undir þá skoðun að fyrirtækinu sé mikil alvara með fyrirætlanir sínar um að koma hingað til lands, en Morgunblaðið greindi frá því fyrst í mars að Costco sýndi opnun hér áhuga. Fyrirtækið hefur því fjárfest gríðarlega í undirbúningsvinnu og virðist stefna hraðbyri að því að opna hér sína fyrstu verslun.
Guðmundur segist ekki geta svarað því til hvort búið sé að taka ákvörðun um opnun hér á landi og það sé alfarið á hendi stjórnenda félagsins erlendis. Hann segir að í gangi sé vinna við hönnun verslananna, en getur ekki sagt til hversu langt á veg komin sú vinna er.
Aðspurður um hvenær hann geri ráð fyrir að ákvöðrun um málið verði tekin segir hann að það verði á þessu ári og líklega fljótlega miðað við þann kraft sem settur hafi verið í málið af hendi Costco.
Fulltrúar Costco hafa að undanförnu skoðað rekstur verslunar hér að mikilli kostgæfni, en auk þess að velta fyrir sér skipulagsmálum og að reisa fjölorkustöð hefur hópurinn fundað með ráðherrum og hagsmunaaðilum eins og Samtökum atvinnulífsins. Guðmundur segir að fyrirtækið hafi meðal annars kynnt sér stéttarfélags- og kjaramál.
Costco er bandarískt félag og í ljósi þess að margir þar eru utan stéttarfélags og að lágmarkslaun eru talsvert lægri en hér á landi lék blaðamanni forvitni á að vita hvernig fyrirtækið hefði tekið þeim lágmarkslaunum sem eru í boði hér. Guðmundur segir að reyndar hafi það komið fyrirtækinu nokkuð á óvart að lágmarkslaun hér á landi eru örlítið lægri en þau lágmarkslaun sem Costco borgar starfsmönnum sínum. Þeir hafi því ekki séð þau mál sem neina hindrun.
Mikið hefur verið rætt um meintar undanþágubeiðnir Costco vegna sölu á áfengi og lyfjum hér á landi og innflutnings á kjöti frá Bandaríkjunum. Guðmundur segir þetta á misskilningi byggt og að ekki hafi verið lagðar fram beiðnir um undanþágur. Fyrirtækið hafi hins vegar lagt fram formlegar fyrirspurnir um ákveðin málefni, en að aldrei hafi verið óskað eftir neinum sérstökum aðgerðum fyrir fyrirtækið eitt og sér. Segir hann að með þessu sé Costco aðeins að fá formlegar upplýsingar um lagaumhverfi og annað sem kemur að rekstri verslananna. „Það var ekki nein sér meðferð sem þeir voru að biðja um,“ segir Guðmundur.