Nýtt hvalaskoðunarskip á Akranesi

Gunnar Leifur Stefánsson, lengst til hægri, ásamt öðrum eigendum Gullfoss.
Gunnar Leifur Stefánsson, lengst til hægri, ásamt öðrum eigendum Gullfoss.

Um helgina eru Írskir dagar, bæjarhátíð Akurnesinga, haldnir hátíðlegir og nær hún hápunkti á morgun þegar nýtt hvalaskoðunar- og sjóstangveiðiskip verður tekið í notkun. Skipið hefur fengið nafnið Gullfoss, en það kom til landsins fyrir skömmu. 

Skipið mun fara jómfrúarferðina á morgun og tvær til. Farið verður frá Akraneshöfn kl. 13, 15 og 17. „Báturinn fékk haffærisskírteinið í dag svo þetta rétt náðist fyrir Írsku dagana,“ segir Gunnar Leifur Stefánsson, einn af eigendum Gullfoss. Báturinn var áður notaður sem farþegabátur í Pool á Englandi.

„Við keyptum hann í vor, sigldum honum heim til Íslands og höfum verið að setja hann í sparifötin að undanförnu, mála og setja hann í stand.“ Báturinn tekur 100 farþega auk þess sem 25 veiðistangir eru um borð. „Þetta verður eini báturinn sem getur boðið upp á þessa blöndu, þ.e. bæði hvalaskoðun og sjóstangveiði. Svo er aflinn grillaður og borðaður á heimleiðinni,“ segir Gunnar.

Báturinn verður gerður út frá Akranesi. „Við erum að hefja mikla uppbyggingu í ferðaþjónustunni hér sem innifelur meðal annars í sér samstarf við aðila í Borgarfirði og á Snæfellsnesi. Hugmyndin er að þjappa þessu saman og búa til það sem við ætlum að kalla „demantshringinn,“ segir Gunnar.

Írskir dagar hófust í gær og standa fram á sunnudag. Sem fyrr segir nær hátíðin hámarki á morgun en meðal þess sem verður í boði er bryggjusund, dorgveiðikeppni, handverksmarkaður, matar- og antikmarkaður, sandkastalakeppni, brekkusöngur, tívolí auk þess sem keppt verður um hinn landsfræga titil, rauðhærðasti Íslendingurinn. Dagskrá hátíðarinnar í heild er að finna á www.irskirdagar.is

Hvalaskoðunar- og sjóstangveiðiskipið Gullfoss.
Hvalaskoðunar- og sjóstangveiðiskipið Gullfoss.
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK