Baldur Björnsson, framkvæmdastjóri Múrbúðarinnar, bendir á að keppinautar hans, Byko og Húsasmiðjan, hafi farið fjárfestingarleið Seðlabankans, fengið afslátt á krónukaupum og lagt þær í samkeppnisrekstur hér á landi.
Ekki hafi komið fram í fjölmiðlum hvort Bauhaus, þriðji risinn á markaðnum, hafi nýtt sér leiðina en félagið eigi kost á því. Það þykir honum ósanngjarnt og skekkja samkeppnisstöðuna, enda geti hann ekki flutt inn gjaldeyri á afslætti. Þessu til viðbótar hafi miklar skuldir verið afskrifaðar hjá um það bil 75% rekstrarfélaga sem séu í samkeppni við fyrirtækið hans. Múrbúðin hafi ekki fengið lán afskrifuð.
„Hlutverk stjórnvalda er að setja almennar leikreglur og jafnt verður yfir alla að ganga. Það er ótækt að hægt sé að leggja ódýrari krónur inn í samkeppnisrekstur á Íslandi. Það skekkir samkeppnina.“
„Þetta minnir nokkuð á umræðuna um þessar mundir um bandarísku verslunina Costco. Hagar og fleiri hafa barist fyrir meira viðskiptafrelsi og vilja t.d. flytja inn kjöt. Nú þegar Costco er að skoða að opna verslun hér á landi og hefur áhuga á að reglurnar verði rýmkaðar rjúka stjórnvöld upp til handa og fóta og ráðherra lýsir því yfir að þessi mál verði skoðuð.
Þetta gengur ekki upp. Það þurfa sömu reglur að gilda um fyrirtæki, hvort sem höfuðstöðvar þeirra eru á Íslandi eða í Bandaríkjunum. Það er hlutverk Alþingis og ráðamanna að stuðla að eðlilegum viðskiptaháttum,“ segir Baldur í viðtali í Morgunblaðinu.