Skipan Stefáns „stórfurðuleg“

Stefán Eiríksson, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, er formaður nefndar sem meta …
Stefán Eiríksson, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, er formaður nefndar sem meta á hæfi umsækjenda um stöðu seðlabankastjóra. mbl.is/Ómar

Skipan nefndarinnar sem meta á hæfni umsækjenda um stöðu seðlabankastjóra, skaðar bæði trúverðugleika ráðningarferlisins og vinnuanda í Seðlabankanum. Þetta segir Guðrún Johnsen, lektor við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík.

Þá segir Regína Bjarnadóttir, yfirmaður greiningardeildar Arion banka, að skipan hæfisnefndarinnar sé skaðleg sjálfstæði Seðlabankans. Vefurinn Central Banking fjallar um málið og ræðir við þær Guðrún og Regínu, en mbl.is hefur heimild fyrir því að talsverðrar óánægju gæti með skipan nefndarinnar.

Einkum er það skipan Stefáns Eiríkssonar lögreglustjóra sem þykir gagnrýniverð. Stefán var skipaður án tilnefningar og er hann jafnframt formaður nefndarinnar. Með honum sitja þau Guðmundur Magnússon, fyrrverandi rektor Háskóla Íslands, tilnefndur af samstarfsnefnd háskólastigsins, og Ólöf Nordal lögfræðingur, tilnefnd af bankaráði Seðlabanka Íslands.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra skipaði nefndina þann 30. júní. Tíu manns sóttu um stöðu seðlabankastjóra, þar á meðal Már Guðmundsson sem gegnt hefur embættinu undanfarin 5 ár.

Fram kemur í umfjöllun Central Banking að Stefán Eiríksson hefur setið í fjölda nefnda um ýmis málefni, s.s. varnarmál, Schengen og löggæslu. Hann er hinsvegar hvorki hagfræðingur né með nokkra starfsreynslu úr efnahagslífinu. Það hefur Ólöf Nordal ekki heldur. Guðmundur Magnússon er því sá eini hagfræðingurinn í nefndinni.

Guðrún Johnsen segir það vonbrigði að sjá hvernig nefndin er samansett og bætir því við að þetta sé til marks um hversu erfitt það sé að endurreisa fagmennsku eftir bankahrunið. „Seðlabankinn hefur átt á brattann að sækja við að reyna að endurvekja trúverðugleika sinn eftir hrunið, og ég held að þetta sé bakslag í þeirri vegferð,“ segir Guðrún í samtali við Central Banking.

„Það eru svo margir augljósir kandídatar til að leiða þessa nefnd, bæði innanlands- og utan,“ bætir hún við. „Þessi skipan er stórundarleg. Og ég er viss um að hún dregur úr starfsandanum í Seðlabankanum, þar sem eru fjölmargir sérfræðingar innanborðs.“

Regína Bjarnadóttir segist í samtal við Central Banking ekki geta séð nein rök fyrir því hvers vegna Stefán Eiríksson hafi verið skipaður í nefndina. Hún bendir á að spenna hafi verið í samskiptum ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans í stjórnartíð Más, sérstaklega um boðaðar skuldaleiðréttingar.

„Forsætisráðherrann hefur opinberlega gagnrýnt Seðlabankann, m.a. fyrir vaxtastefnu hans og spá bankans um áhrif skuldaleiðréttinganna á neyslu og verðbólgu.“

Sjá umfjöllun Central Banking

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK