Mikill órói hefur ríkt á evrópskum fjármálamörkuðum í dag eftir að í ljós kom að portúgalski bankinn Baco Espirto Santo (BES) gæti ekki staðið við skuldbindingar og þyrfti líklegast á aðstoð ríkisins að halda. Hlutabréf félaga í suðurhluta Evrópu hafa hríðlækkað í verði og þá gætir áhrifanna jafnframt í Bandaríkjunum, þar sem hlutabréfavísitölur hafa fallið umtalsvert.
Margir evrópskir fjárfestar hafa miklar áhyggjur af stöðunni í Portúgal og óttast enn frekara verðfall hluta- og skuldabréfa. Til marks um það hefur þónokkur fjöldi fjárfesta flúið og leitað skjóls, ef svo má að orði komast, í tiltölulega öruggum bandarískum og þýskum ríkisskuldabréfum. Ávöxtunarkrafa á tíu ára þýsk ríkisskuldabréf hefur einmitt ekki verið lægri í tvö ár. Þá hefur verð á gulli jafnframt hækkað talsvert í dag, eins og gerist jafnan þegar órói ríkir á hlutabréfamörkuðum.
Mikil deyfð hefur verið yfir eignamörkuðum, sér í lagi í Evrópu, undanfarna mánuði. Það hefur orðið til þess að fjölmörg félög og ríki, þar á meðal Portúgal, hafa nýtt tækifærið og sótt sér lánsfé á þessum mörkuðum. Portúgalska ríkið gaf meira að segja út skuldabréf til nokkurs langs tíma fyrir réttri viku.
Sérfræðingar á fjármálamörkuðum sem Financial Times ræddi við segja að titringurinn í dag hafi minnt ískyggilega á þær miklu verðsveiflur sem urðu í evrukreppunni, forðum daga. Þannig lækkuðu til dæmis allar hlutabréfavísitölur í Evrópu í dag. Hlutabréf í Bandaríkjunum hríðféllu við opnun markaða en hækkuðu þó örlítið þegar leið á daginn og endaði Dow Jones-hlutabréfavísitalan í 16.907 stigum. Það þýðir lækkun upp á 0,5%. Mest hafði hún lækkað um 1,1% fyrr um daginn. S&P 500-hlutabréfavísitalan féll ennfremur um 0,5% og endaði í 1.963 stigum.
Fjármálagreinendur eru sammála um að titringurinn hafi aðallega orðið vegna bágborinnar stöðu bankans BES, eins og áður var nefnt. Hlutabréf bankans hafa verið undir þrýstingi allt frá því að portúgölsk stjórnvöld hófu rannsókn á meintum bókhaldssvikum móðurfélags bankans. Töldu stjórnvöld að 1,3 milljarða evra, sem jafngildir 202 milljörðum íslenskra króna, vantaði inn í bókhaldið svo það stemmdi.
En bréfin snarlækkuðu hins vegar ekki í verði fyrr en í dag eftir að í ljós kom að móðurfélagið hafi ekki getað staðið við skuldbindingar sínar. Bréfin hrundu um 17% í verði og voru komin niður í fimmtíu sent áður en fjármálaeftirlitið þar í landi lét loka fyrir viðskipti með þau um miðjan dag.
„Menn hafa áhyggjur af því hvaða afleiðingar þetta mun hafa í för með sér,” segir Thomas Roth, verðbréfamiðlari hjá Mitsubishi UFJ Securities, í samtali við Wall Street Journal. „Kenningin er sú að þetta gæti leitt til bankahruns og komið okkur aftur í kreppu.“
Nick Lawson, breskur verðbréfamiðlari hjá Deutsche Bank, segir að ástandið minni mjög á árið 2011, þegar evrukreppan stóð hvað hæst. Steven Wieting, sérfræðingur hjá Citi-bankanum, telur að „óttinn við óttann“ hafi valdið hlutabréfalækkunum í dag.
Aðalhlutabréfavísitalan í Portúga, PSI 20, lækkaði um heil 4,2% í viðskiptum dagsins og hefur hún ekki lækkað jafn mikið á einum degi í tugi mánaða.
En verðbréf lækkuðu ekki aðeins í dag, fjárfestum til mikillar armæðu, heldur þurftu nokkur suður-evrópsk félag að fresta fyrirhuguðum hluta- og skuldabréfaútboðum. Spænski bankinn Banco Popular Espanol hafði til að mynda í hyggju að gefa út svokölluð CoCos-skuldabréf, þ.e. skuldabréf sem breytast sjálfkrafa yfir í hlutafé þegar ákveðinn atburður á sér stað, til dæmis þegar eiginfjárhlutfall lækkar niður fyrir ákveðin mörk og svo framvegis. Skuldabréfaútgáfan átti að vera að andvirði að minnsta kosti 500 milljóna evra, en henni var frestað.
Spænska félagið ACS, sem er eitt stærsta verktakafélag landsins, neyddist jafnframt til að fresta skuldabréfaútboði sínu í evrum.
Þá var fyrirhugað að skrá ítalska lyfjafélagið Rottapharm á hlutabréfamarkað í dag, en ekkert varð úr þeim áformum vegna hræðslu, og þar með lítillar eftirspurnar, fjárfesta.
Skuldabréfaútboð gríska ríkisins fór einnig fram í dag. Í útboðinu í apríl var gríðarleg umframeftirspurn og bárust alls tilboð fyrir tuttugu milljarða evra. Í dag var raunin hins vegar allt önnur önnur. Áhuginn var lítill meðal fjárfesta og bárust aðeins tilboð fyrir þrjá milljarða evra. Var því ákveðið að draga úr umfangi útboðsins og gefa aðeins út skuldabréf fyrir einn og hálfan milljarð evra.
Í Financial Times er haft eftir Jim Reid, greinanda hjá Deutsche Bank, að vandinn við stöðu bankans BES veki áleitnar spurningar um fjárhagsstöðu fleiri banka á evrusvæðinu. Þrátt fyrir að langflestir bankarnir á svæðinu hefðu farið í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu og hreinsað efnahagsreikninga sína, þá þýði það ekki að bankarnir séu aftur komnir í toppstand. Mikið verk sé enn fyrir höndum.
Heimildarmaður blaðsins, sem þekkir mjög vel til í portúgalska bankaheiminum, segir að líklegasta lausnin á núverandi vanda BES sé sú að ríkið komi honum einfaldlega til bjargar. Vangaveltur séu uppi um aðrir bankar, eða stór fjárfestingafélög, taki BES yfir, en ljóst sé að það tæki of langan tíma. „Það þarf að finna lausn núna - á næstu vikum - og það þýðir að ríkið mun þurfa að koma að málum,“ segir hann.
Seðlabanki Portúgals ítrekaði í dag að lausafjárstaða BES væri viðunandi. Margir greinendur efast á hinn bóginn um það. Roberto Brasca, sjóðsstjóri hjá AcomeA, bendir á að vandræðin einskorðist ekki bara við BES. Óstöðugleiki hafi magnast upp á eignamörkuðum upp á síðkastið og nú loks komi afleiðingarnar fram.
„Atburðirnir í dag gætu talið mörkuðum í trú um það að horfurnar séu ekki eins bjartar og fólk hefur haldið,“ segir Gianluca Ziglio, greinandi hjá Sunrise Brokers.
Það verður því spennandi að sjá hver þróunin verður á næstu dögum.