Athanasios Orphanides, fyrrverandi bankastjóri Seðlabanka Kýpur, segir að hinn pólitíski óstöðugleiki í Evrópu sé slíkur að það væru mistök fyrir hvaða ríki sem væri, þar á meðal Ísland, að fara inn á evrusvæðið undir núverandi kringumstæðum.
„Ef ekki finnst lausn á kerfisgöllum evrusvæðisins, þannig að ríkisstjórnir álfunnar geti unnið í sameiningu, þá er það ekki neinum ríkjum í hag að taka upp evruna,“ segir hann í viðtali við ViðskiptaMoggann, sem út kom í dag.
Orphanides telur það hafa verið viðeigandi að setja gjaldeyrishöft á Íslendinga á sínum tíma til að koma í veg fyrir enn stærra gengishrun krónunnar. Önnur staða hafi hins vegar verið uppi á Kýpur þegar ströng höft voru sett þar í mars í fyrra. „Það var alfarið pólitísk ákvörðun. Frá efnahagslegum sjónarhóli var það ónauðsynlegt,“ segir Orphanides.