Skuldirnar svipaðar hjá Frökkum og Bretum

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra mbl.is/Ómar

Skuldahlutfall íslenska ríkisins gæti orðið svipað og Þýskalands árið 2019 en skuldir Íslands verða áfram væntanlega talsvert meiri en hjá  hinum Norðurlöndunum. Þetta er meðal þess sem kom fram í Peningamálum Seðlabanka Íslands í maí. 

Í ræðu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins í gær kom fram að stefnt væri að því fyr­ir lok árs­ins 2020 verði skuld­astaða Íslands orðin ein sú besta í Evr­ópu og það sé raun­hæft mark­mið.

Í spá Seðlabankans sem birt var í maí er ekki gert ráð fyrir frekari fyrirframgreiðslum á lánumtengdum efnahagsáætlun stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
Kæmi til frekari fyrirframgreiðslna myndi það lækka vergar skuldir ríkissjóðs en hrein skuld hans héldist óbreytt. Vergar skuldir hins opinbera hér á landi námu 90% af landsframleiðslu í lok árs 2013 samanborið við 101% í lok árs 2011.

Þetta eru svipaðar vergar skuldir og í ýmsum öðrum þróuðum ríkjum, t.d. Bretlandi og Frakklandi, en töluvert lægri en í Grikklandi, Ítalíu, Írlandi, Portúgal og Japan. Útlit sé fyrir að skuldastaðan batni enn frekar á næstu árum og að Ísland verði með svipað skuldahlutfall og Þýskaland árið 2019. Skuldir hér á landi væru þó enn nokkru meiri en
hjá hinum Norðurlöndunum, segir meðal annars í Peningamálum.

Skuldastaðan óviðunandi að sögn fjármálaráðherra

Þegar Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra kynnti fjárlög ársins 2014 í byrjun október kom fram að þá væri útlit fyrir að skuldir ríkissjóðs verði samanlagt 1.500 milljarðar kr. eða 84% af landsframleiðslu í lok árs. Fram kom í máli ráðherra að skuldaaukning ríkisins vegna hallarekstrar síðustu ára verði nærri 400 milljarðar í lok ársins 2013.

„Þessi mikla skuldastaða, ófjármagnaðar skuldbindingar og háar vaxtagreiðslu draga upp óviðunandi stöðu. Þess vegna er það forgangsatriði í fjárlagagerðinni fyrir árið 2014 að stöðva skuldasöfnunina og leggja áherslu á hversu miklu jöfnuður í ríkisfjármálunum skiptir fyrir okkur til þess að fá að nýju alvöruviðspyrnu,“ sagði Bjarni.

Sigmundur Davíð kom einnig inn á þessar skuldir í ræðu sinni í gær:

„Það er mikið til vinn­andi að lækka þess­ar skuld­ir svo við verðum áfram að sýna aðhald í rekstri rík­is­ins. En við get­um líka minnkað þess­ar byrðar með því að sýna að við séum að ná ár­angri í rík­is­fjár­mál­um. Þannig get­um við lækkað vaxta­byrgði rík­is­ins eins og gert var fyrr í þess­ari viku og í raun erfitt að finna betri staðfest­ingu á þeim ár­angri sem hef­ur náðst, þegar ís­lenska ríkið end­ur­fjármagnaði er­lend­ar skuld­ir upp á um 116 m.a. kr. og lækkuðu vext­ina um heilt pró­sentu­stig,“ sagði Sig­mund­ur og bætti við: „Við stefn­um að því að fyr­ir lok árs­ins 2020 verði skuld­astaða Íslands orðin ein sú besta í Evr­ópu og það er raun­hæft mark­mið.“

Stefnt að hallalausum fjárlögum

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir áform sín og ríkisstjórnarinnar um að leggja fram hallalaust fjárlagafrumvarp í haust, fyrir árið 2015, í engu hafa breyst þrátt fyrir þá spá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að halli á fjárlögum næsta árs geti orðið um 0,5% og spá AGS fyrir fjárlög ársins 2016 sé sú að hallinn geti orðið 1,3% af vergri landsframleiðslu.

„Það hefur ekkert breyst í þeim efnum. Ég stefni að því að leggja fram hallalaus fjárlög í haust, fyrir árið 2015, rétt eins og fjárlagafrumvarpið fyrir árið í ár var án halla, og nú stefnir í að jöfnuður ríkissjóðs fyrir árið í ár verði jákvæður um tæp tvö prósent af vergri landsframleiðslu. Við vinnum að sjálfsögðu áfram að því að halda ríkissjóði áfram réttum megin við núllið, til framtíðar,“ sagði Bjarni í samtali við Morgunblaðið í gær.

Með aðhaldssemi í ríkisrekstrinum er raunhæft að halda ríkissjóði áfram hallalausum og koma þannig í veg fyrir frekari lántökur ríkissjóðs,“ sagði fjármálaráðherra.

Bjarni var spurður með hvaða hætti myndi koma til frekari niðurskurðar hjá hinu opinbera í fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár:

„Við erum með viðvarandi aðhaldskröfu í ríkisrekstrinum, til þess að tryggja að ávallt sé verið að forgangsraða að nýju og gæta að því að fjármunir hins opinbera nýtist sem best.

Þrátt fyrir það sjáum við fyrir okkur að geta bætt í á einstaka sviðum en ég verð að bíða með það fram á haustið að útlista hvernig við ætlum að láta þær áherslur birtast. Það á heilmikil vinna eftir að fara fram hér í fjármálaráðuneytinu og öðrum ráðuneytum ríkisstjórnarinnar áður en hægt verður að upplýsa í smáatriðum hvernig fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2015 mun líta út,“ sagði Bjarni.

„Auðvitað er þetta krefjandi verkefni, því hefur enginn mótmælt. En við teljum að þetta sé mögulegt og það sé afar mikilvægt að koma í veg fyrir frekari skuldasöfnun hjá ríkinu og reyndar að það geti skipt sköpum varðandi þann stöðugleika og aga sem þarf að innleiða í opinber fjármál. Það er algert lykilatriði að slá því ekki á frest og forsenda þess að við vinnum okkur með varanlegum hætti út úr vandanum,“ sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra í viðtali sem birt var í Morgunblaðinu í dag.

Heildarskuldir opinberra aðila 122,6% af landsframleiðslu

Í þjóðhagspá sem Hagstofa Íslands birti nýverið kemur fram að þrátt fyrir betra jafnvægi í opinberum fjármálum eru skuldir opinberra aðila háar hvort sem litið er til sögulegrar þróunar eða alþjóðlegs samanburðar. Samkvæmt uppgjöri Hagstofunnar námu heildarskuldir opinberra aðila 122,6% af landsframleiðslu á síðasta ári en höfðu þá lækkað tvö ár í röð eftir mikla hækkun í kjölfar fjármálakreppunnar.

Skuldir vegna verðbréfaútgáfu og lántöku vega þyngst og námu á síðasta ári rétt tæplega 90% af landsframleiðslu. Hlutur lífeyrisskuldbindinga er einnig töluvert mikill en slíkar skuldbindingar námu á síðasta ári rétt um 26% af landsframleiðslu og hafa hlutfallslega lítið breyst síðustu tvo áratugi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK