Fyrirtækið Ferskar kjötvörur, sem er dótturfyrirtæki Haga, hefur stefnt fjármálaráðherra og landbúnaðarráðherra, fyrir hönd ríkisins, fyrir að meina fyrirtækinu að flytja inn til landsins ferskt nautakjöt frá Hollandi. Fyrirtækið telur að samkvæmt íslenskum lögum, rétt skýrðum, sé heimilt að flytja inn ferskt kjöt. Rétt sé að víkja til hliðar þeim ákvæðum íslenskra laga sem banni innflutning á fersku, hráu nautakjóti fyrir þeim ákvæðum EES-samningsins og afleiddra gerða hans sem mæli fyrir um frjáls viðskipti með landbúnaðarvörur.
Arnar Þór Stefánsson hrl. fer með málið fyrir hönd Ferskra kjötvara.
Í febrúar á þessu ári pantaði félagið 83 kíló af nautalundum frá Hollandi fyrir 1.909 evrur. Kjötið var flutt til landsins í lok febrúarmánaðar, en þá hafði félagið sótt um að fá að flytja það inn. Landbúnaðarráðherra gaf jákvætt svar við því, en með þremur skilyrðum:
Í fyrsta lagi yrði að liggja fyrir staðfesting um að heimilt væri að markaðssetja afurðirnar á EES, í öðru lagi þyrfti að vera til staðar vottorð sem staðfesti að vörurnar hefðu verið geymdar við að minnsta kosti -18 °C í einn mánuð áður en það yrði afgreitt úr tollinum og í þriðja lagi að til væri opinbert vottorð sem staðfesti að afurðirnar væru lausar við salmonellusýkingu.
Félagið sagðist hins vegar ekki geta uppfyllt annað skilyrðið enda væri stefnt að því að bjóða neytendum upp á ferska kjötvöru án þess að hún hefði verið fryst í einn mánuð. Í greinargerð ríkisins er aftur á móti bent á að félaginu hafi verið í lófa lagið að annaðhvort frysta kjötið í einn mánuð, og uppfylla þannig skilyrði til innflutnings á því, eða endursenda kjötið og takmarka með þeim hætti tjón sitt.
Ferskar kjötvörur óskuðu eftir því að Matvælastofnun heimilaði innflutning vörunnar, en hún hafnaði þeim óskum. Það gerði tollstjórinn einnig.
Í kjölfarið stefndi félagið þá íslenska ríkinu, fjármálaráðherra og landbúnaðarráðherra fyrir dóm. Félagið telur að ákvörðun Matvælastofnunar um að hafna innflutningi vörunnar, sem og ákvörðun tollstjórans um að stöðva innflutninginn, sé í andstöðu við íslensk lög rétt skýrð í samræmi við EES-rétt og skuldbindingar íslenska ríkisins samkvæmt EES-samningnum. Er skaðabóta krafist frá ríkinu, en til vara að ákvörðun Matvælastofnunar og tollstjóra verði felld úr gildi.
Þess má geta að í stefnunni er minnst þess þegar Samtök verslunar og þjónustu sendu bréf til Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA, í desember árið 2011, þar sem kvartað var yfir innflutningsbanni ríkisins á hráu kjöti. Töldu samtökin að bannið bryti í bága við skyldur Íslands samkvæmt EES-samningnum, enda lægju hvorki fyrir vísindalegar rannsóknir né alþjóðlegt áhættumat sem styddu umrætt bann.
ESA sendi bréf til íslenska ríkisins nokkrum dögum síðar þar sem óskað var ítarlegs rökstuðnings fyrir innflutningsbanninu. Var sérstaklega óskað eftir því að ríkið rökstyddi hvaða ástæður réttlættu bannið og að færð yrðu rök fyrir því að engar minna íþyngjandi aðgerðir gætu náð sama markmiði.
Það var síðan í lok seinasta árs að ESA komst að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkið hefði brotið gegn skuldbindingum sínum samkvæmt EES-samningnum. Málið er hins vegar enn til skoðunar hjá stofnuninni og hefur enn ekki verið tekin endanleg ákvörðun um hvort hún höfði mál fyrir EFTA-dómstólnum á grundvelli meintra samningsbrota íslenska ríkisins. Það verður tíminn að leiða í ljós.