Fyrirtækið Silicor Materials, sem ætlar að reisa sólarkísilverksmiðju á Grundartanga, hefur áður fyrr fallið frá tveimur svipuðum áformum í Bandaríkjunum þar sem ekki náðist að fjármagna verkefnið. Þetta kemur fram í fréttaskýringu visis.is í dag, en Silicor misfórst meðal annars að leggja fram 150 þúsund dala tryggingu á vörslureikning.
Árið 2011 ætlaði Silicor að reisa sólarkísilverksmiðju í Lownedes-sýslu í Mississippi, en heildarupphæð verkefnisins var 200 milljónir dala, eða 46 milljarðar króna. Vísir segir að verkefnið hafi átt að skapa 950 störf og að framleiðslan hafi verið ráðgerð 16 þúsund tonn á ári.
Sveitarfélagið lagði til mikla opinbera aðstoð, svo sem gatnagerð, hagstæðar lánalínur og skattahvata. Heildarverðmæti þess var um 10,7 milljarðar. Ekkert varð þó af framkvæmdunum og þegar sýslan óskaði eftir tryggingu upp á 150 þúsund dali þangað til framkvæmdir myndu hefjast kom fyrirtækið ekki með neina fjármuni. Fallið var frá áformunum nokkru seinna.
Sama ár hætti fyrirtækið við byggingu verksmiðju í Ohio af sömu ástæðum, en fyrirtækið hafði þá fengið vilyrði fyrir 275 milljón dala lánalínu frá yfirvöldum. Því var hafnað af Silicor þar sem frekar var horft til Mississippi.
Fyrirhuguð árleg framleiðslugeta verksmiðjunnar hér á landi er um 16.000 tonn og áætlaður byggingarkostnaður 670 milljónir Bandaríkjadollara, tæplega 77 milljarðar króna.
Þegar tilkynnt var um verkefnið var vonast til að uppbygging gæti hafist í haust og að fullum framleiðsluafköstum verði náð haustið 2017 eða vorið 2018. Verksmiðjan myndi skapa meira en 400 störf eftir að starfsemi er komin að fullu í gang, auk þeirra starfa er skapast á byggingartíma.