Hótelherbergi voru 706 en verða 4.664

Á næstu árum munu fjölmörg gistipláss bætast við í Reykjavík. …
Á næstu árum munu fjölmörg gistipláss bætast við í Reykjavík. Þar á meðal er Reykjavíkurapótek, en KEA-hótel ætla að opna þar nýtt miðbæjarhótel. Eggert Jóhannesson

Um aldamótin voru hótelherbergi miðsvæðis í Reykjavík 706, en í dag eru þau 3.275. Eftir þrjú ár má gera ráð fyrir að fjöldi þeirra verði orðinn 4.664, en það er rúmlega sexföldun á hótelgistingu. Á sama tíma hefur hostelgisting einnig aukist mikið en um aldarmótin voru hostelrúm 180 á svæðinu, en eru í dag 791. Þetta leiðir úttekt Morgunblaðsins og mbl.is í ljós en samantektin byggist á samtölum við fjölda einstaklinga í hótelgeiranum á síðustu vikum.

Sjöföldun á gistiplássi

Þegar núverandi framkvæmdir og áætluð uppbygging er skoðuð má sjá að árið 2017 mun gistipláss hafa sexfaldast, þegar bæði er horft til hótelherbergja og hostelrúma. Þetta er varlega áætlað þegar tekið er mið af því að útleiga á íbúðum hefur aukist mikið, sem og framboð á gistiheimilum. Þegar fjölda leiguíbúða er bætt við má sjá að gistipláss mun tæplega sjöfaldast á þessu tímabili. 

Tekið skal fram að hér er ekki um endanlega samantekt að ræða. Þá verður mikil fjölgun leiguíbúða til ferðamanna tekin fyrir í miðlunum á næstu dögum, ásamt því sem fjallað verður um gistiheimili.

Fjöldi aðila horfir til þess að stækka núverandi aðstöðu, en meðal annars er KEX Hostel að íhuga stækkun. Þá staðfestir Kristófer Oliversson, framkvæmdastjóri Center Hotels, að horft sé til enn frekari stækkunar en gerð er grein fyrir í töflunni hér til hliðar. Eigendur 101 Hotel Reykjavík skoða nú möguleika á að stækka hótelið vestur eftir á Hverfisgötunni. Ingibjörg Pálmadóttir, eigandi hótelsins, gaf ekki kost á viðtali vegna þessa.

Bera víurnar í áberandi eignir

Fjárfestar horfa til fleiri eigna undir hótelrekstur en hér eru tilgreindar. Má þar nefna Laugaveg 120 en Arion banki var þar með útibú þar til nýverið. Einnig mætti nefna hús Íslandsbanka í Lækjargötu en í báðum tilfellum hefur ekki verið tekinendanleg ákvörðun um framtíðarnotkun húsanna.

Gefa þessi dæmi tilefni til að ætla að samantektin hér til hliðar vanmeti fyrirhugaða hóteluppbyggingu. Þá skal ítrekað að hundruð íbúða í miðborginni hafa verið leigð út til ferðamanna á síðustu árum og bætast þær við framboðið. Fjallað verður um þær á morgun.

Meðal hótelkeðja sem undirbúa fjölgun hótelherbergja í Reykjavík á næstunni eru KEA-hótelin. Þau undirbúa byggingu 100 herbergja hótels á Hverfisgötu, ásamt stækkun Hótels Borgar og opnun nýs hótels í húsi Reykjavíkurapóteks.

Ólafur Ágúst Þorgeirsson, hótelstjóri Hótels Borgar, segir félagið horfa til efnaðri viðskiptavina varðandi síðastnefndu hótelin tvö. „Þetta verða fjögurra stjörnu hótel, bæði tvö. Stærsti kúnnahópur okkar er efnaðir Bandaríkjamenn. Við sjáum að það er þörf fyrir svona gistingu hjá þessum hópi. Þeir vilja gæðagistingu. Svo eru það dagsferðir og þyrluferðir. Þeir vilja einkaferðir með einkabílstjóra en ekki skipulagðar rútuferðir. Þeir vilja fara á góða veitingastaði.“

Kvarta ekki undan genginu

– Horfið þið til frekari stækkunar á öðrum stöðum í miðborginni? „Það er alltaf verið að skoða hluti en það er ekki tímabært að greina frá því á þessari stundu.“ – Það sjónarmið hefur heyrst að farið sé of geyst í uppbygginguna? „Það er að byggjast upp alveg gífurlega mikið framboð. Við teljum hins vegar að það sé þörf á hótelum í þeim gæðum sem við munum bjóða upp á. Það gæti hins vegar þurft að fara að hægja á uppbyggingu tveggja til þriggja stjörnu hótela. Þessu má fara að linna. Við getum ekki endalaust byggt upp hótel.“

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins úr hótelgeiranum hefur stóraukið framboð leitt til aukinnar samkeppni og hefur verð á gistingu því lækkað. Dæmi er um að viðskiptavinir hafi afbókað gistingu og svo bókað annars staðar, þar sem gistingin er ódýrari. Því er erfiðara fyrir hótelin að halda uppi því verði sem er nauðsynlegt til að tryggja við unandi arðsemi. Kristófer Oliversson, framkvæmdastjóri Center Hotels, segir reksturinn ganga ágætlega, en að hótelkeðjan finni vel fyrir auknu framboði hótelherbergja á markaðnum í Reykjavík.

Á næstu dögum munu mbl.is og Morgunblaðið fjalla nánar um gistimarkaðinn í Reykjavík.

Fjölgun hótela og hostela í miðborg Reykjavíkur. Staðan fyrir og …
Fjölgun hótela og hostela í miðborg Reykjavíkur. Staðan fyrir og eftir 2008. Á næstu árum má gera ráð fyrir að tæplega 1400 hótelherbergi bætist við, en sú tala er nokkuð varfærin. Mynd/mbl.is
Nýlega opnaði Hótel Alda á Laugavegi.
Nýlega opnaði Hótel Alda á Laugavegi. Þórður Arnar Þórðarson
Hótel Reykjavík Marina opnaði árið 2012 við slippinn í Reykjavík. …
Hótel Reykjavík Marina opnaði árið 2012 við slippinn í Reykjavík. Áformað er að bæta við 60 herbergjum á næsta ári. Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK