Kristín Þorsteinsdóttir hefur verið ráðin útgefandi 365. Útgefandi er yfirmaður fréttastofu og ber ábyrgð á störfum hennar gagnvart forstjóra, Sævari Frey Þráinssyni. Aðalritstjóri mun áfram stýra daglegum rekstri fréttastofu og er því ekki um neina breytingu að ræða á störfum hans eða ritstjórnarlegu sjálfstæði fréttastofu, segir í fréttatilkynningu um málið.
Áður hefur forstjóri haft hlutverk útgefanda en með þessari breytingu er lögð áhersla á sjálfstæði fréttastofu frá öðrum rekstri fyrirtækisins.
Kristín hefur víðtæka reynslu af fjölmiðlum, dagblöðum, útvarpi og sjónvarpi og vann lengst af hjá Ríkisútvarpinu. „Ráðning Kristínar er mikill fengur fyrir fréttastofu 365 í ljósi reynslu hennar,“ er haft eftir Sævari Frey í tilkynningu. „Það er einnig sérstakt ánægjuefni að kona bætist í hóp yfirstjórnar fréttastofu og er liður í áformum 365 að auka hlut kvenna í stjórnunarstöðum innan fyrirtækisins.“
Kristín er cand.mag. í íslensku, MA í blaðamennsku frá City University í London og MBA frá HÍ. Auk reynslu af fjölmiðlum hefur Kristín starfað á samskiptasviði Baugs, í upplýsingamálum hjá Iceland Express og sinnt ýmsum ráðgjafastörfum. Síðastliðin tvö ár hefur Kristín setið í stjórn 365 en lætur nú af stjórnarstörfum.