Áætla má að 1.500 til 2.000 íbúðir í Reykjavík séu nú leigðar út til erlendra ferðamanna. Mikill meirihluti þeirra er í miðbænum.
Þetta kemur fram í fréttaskýringu í Morgunblaðinu í dag.
Þar kemur jafnframt fram að 340 íbúðir hið minnsta eru nú í útleigu á vegum skráðra íbúðahótela í Reykjavík. Til samanburðar er 41 herbergi á Hótel Holti og 209 á Hótel Sögu.
Vísbendingar eru um að leiguíbúðum í borginni hafi fjölgað umfram fjölgun erlendra ferðamanna og að mikil fjölgun hótela á næstu árum muni auka samkeppnina enn frekar.
Hlín Gunnarsdóttir, eigandi íbúðahótelsins Forsælu á Grettisgötu, segir fjölgunina ósjálfbæra: „Hótelvæðingin í miðbænum er bóla, dæmd til að springa.“
Umsvifamikill aðili á markaðnum, sem óskaði nafnleyndar, spáir hruni hjá íbúðahótelum á næsta ári vegna stóraukins framboðs gistingar hjá nýjum hótelum í Reykjavík.
Halldór Meyer, eigandi íbúðahótelsins Stay Apartments, er með 70 íbúðir í útleigu. Hann segist hafa þurft að lækka verð í sumar vegna stóraukins framboðs íbúða.