Fjölgun hótela og hótelíbúða í Reykjavík er ein stærsta breyting sem hefur átt sér stað í Reykjavík undanfarna áratugi, en því fylgir lagfæring íbúða, uppbygging húsa og aukinn mannfjöldi, aðallega miðsvæðis í borginni. Hliðaráhrif þessa er aukin verslun, fleiri veitingahús og önnur þjónusta. Þá helst þessi uppbygging oft í hendur við endurnýjun gatna og breytingu á næsta umhverfi gististaða.
Borgaryfirvöld hafa verið dugleg við að taka nokkrar af helstu verslunargötum borgarinnar í gegn undanfarinn áratug og er nærtækast að líta til Laugavegs, Hverfisgötu og Skólavörðustígs. Samhliða þessum breytingum sækist verslun og þjónusta eftir aðstöðu á þessum svæðum sem kallar á að hús í slæmu ásigkomulagi séu löguð eða endurbyggð sem aftur útvíkkar svæði „heitra reita“ í borginni.
Uppbygging sem þessi er þó ekki eintóm sæla, því margt þarf að hafa í huga. Miðborg Reykjavíkur er tiltölulega lágreist, en með auknum vinsældum miðsvæðis þrýstist lóðaverð upp og því leggja verktakar á það áherslu að byggja hærri og rúmmeiri hús. Þetta fellur ekki alltaf að götumynd eða stemningu í miðbænum.
Fjölgun ferðamanna hefur einnig orðið til þess að hægt er að upplifa sig sem útlending í eigin borg, en ferðamenn eru í miklum meirihluta gangandi vegfaranda í miðborginni, allavega yfir sumartímann. Undanfarna daga hafa Morgunblaðið og mbl.is tekið saman fjölda hótela og íbúðahótela miðsvæðis í Reykjavík. Kortið hér sýnir umfang rekstursins.