Mannréttindadómstóll Evrópu dæmdi í dag rússneska ríkið til að greiða fyrrum eigendum olíurisans Yukos tæplega 2,5 milljarða Bandaríkjadala, um 290 milljarða íslenskra króna, í bætur vegna yfirtöku á félaginu árið 2007. Þetta er annað dómsmálið í þessari viku sem rússneska ríkið tapar vegna yfirtökunnar, en áður hafði gerðardómstóll í Haag dæmt Rússland til að greiða um 50 milljarði dala í bætur.
Þetta er stærsta sektin sem Mannréttindadómstóll Evrópu hefur dæmt. Yukos hafði áður lagt fram mál fyrir dómstólinn árið 2004 vegna fjölda skattamála sem sótt voru gegn fyrirtækinu. Í dómsorði í dag kom fram að alvarleiki ásakana og framkvæmdar í málinu af hálfu yfirvalda hafi ekki verið í samræmi við meint brot og það hafi haft mikið um það að segja að félagið fór í gjaldþrot.
Verði sektin einhvern tímann greidd út mun hún skiptast á milli þeirra 55 þúsund hluthafa sem áttu í félaginu. Upphaflega sóttu þeir um bætur upp á 38 milljarða evra. Þrátt fyrir að hún hafi lækkað talsvert var upphæðin 21 sinnum stærri en hæsta sektin sem áður hafði verið dæmd.
Með þessum dómi er heildarsektargreiðsla sem Rússland hefur verið dæmt til að greiða vegna málsins komin upp í 6.290 milljarða króna, en það er margföld landsframleiðsla Íslands, sem var 1786 milljarðar í fyrra.