Peningastefnunefnd Evrópska seðlabankans ákvað á fundi sínum í dag að halda stýrivöxtum bankans óbreyttum. Vextirnir haldast því enn í 0,15% annan mánuðinn í röð, en þeir hafa aldrei verið lægri.
Ákvörðunin kom greinendum ekki í opna skjöldu, þrátt fyrir að fregnir hafi borist af því að þjóðartekjur Ítalíu hafi dregist saman annan ársfjórðunginn í röð og að framleiðsla í Þýskalandi hafi minnkað umtalsvert í júnímánuði.
Verðbólgan á evrusvæðinu er í lágmarki, mælist 0,4%, en verðbólgumarkmið Evrópska seðlabankans er 2%. Nokkrir greinendur sem Financial Times ræddi við búast við því að Evrópski seðlabankinn muni brátt grípa til róttækra aðgerða, svo sem beinna skuldabréfakaupa á markaði, til að stemma stigu við þróuninni og koma í veg fyrir að tímabil verðhjöðnunar taki við.
Christine Lagarde, framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, segir að lág verðbólga á evrusvæðinu ógni efnahagsbatanum í Evrópu. Stefnusmiðir þurfi að leita allra leiða til að auka verðbólguna.