Sérfræðingahópur Landssamtaka lífeyrissjóðanna (LL) varar við því að teknar verði einhliða ákvarðanir um afnám verðtryggingarinnar í lífeyriskerfinu. Hópurinn minnir jafnframt á að lífeyrisréttindi hafi brunnið upp áður en verðtrygging hafi verið heimiluð á fjárskuldbindum með Ólafslögum árið 1979.
Verkefnisstjórn um framtíðarskipan húsnæðismála, sem Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra skipaði í fyrra og skilaði tillögum sínum í vor, leggur til að tekið verði upp nýtt húsnæðiskerfi að danskri fyrirmynd þar sem stefnt verði að afnámi verðtryggingar fasteignaveðlána. Vill verkefnisstjórnin meðal annars að lagður verði grunnur að nýju húsnæðiskerfi, staða Íbúðalánasjóðs skýrð og lífeyrissjóðakerfið endurbætt með afnám verðtryggingar í huga.
Í umsögn sérfræðingahóps LL, sem stjórn samtakanna skipaði í vor, er minnt á, eins og áður sagði, að lífeyrisréttindi hafi brunnið upp áður en verðtryggingin hafi verið heimiluð á sínum tíma. Eigi að víkja frá því fyrirkomulagi þurfi að skoða það heildstætt.
„Skilgreint markmið lífeyrissjóða er að tryggja kaupmátt sjóðfélaga sinna. Réttindi sjóðfélaga fylgja almennt vísitölu neysluverðs (í einhverjum tilvikum launavísitölu). Ef eignir nægja ekki fyrir réttindum sjóðfélaga eru réttindin lækkuð eða gengið á ábyrgðaraðila þeirra sjóða sem eru með bakábyrgð.
Lífeyrisskuldbindingar eru því í raun ekki verðtryggðar, en við mat á þeim er gert ráð fyrir því að skuldbindingar séu verðtryggðar, enda er það í samræmi við markmið lífeyrissjóða,“ segir jafnframt í umsögn hópsins.
Ekki sé skynsamlegt fyrir lífeyrissjóði að starfa eftir öðru markmiði en að tryggja kaupmátt sjóðfélaga sinna því vegna þess að lífeyrisgreiðslum er ætlað að standa undir neyslu í framtíðinni, benda sérfræðingarnir á.
„Mikilvægt er að uppbygging sjóðanna taki mið af tilgangi þeirra og áður en ákveðið er hvort afnema eigi verðtryggingu við mát á lífeyrisskuldbindingum er nauðsynlegt að ræða um hvort markmið sjóðanna eigi að vera eitthvað annað en að tryggja neyslu sjóðfélaga í framtíðinni,“ segir ennfremur í umsögninni.
Verkefnisstjórnin hefur einnig lagt til að í nýju húsnæðiskerfi verði lán til framtíðar óverðtryggð. Það er raunar í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar í þessum málum, sem vill draga úr vægi verðtryggingarinnar.
Sérfræðingahópur LL bendir hins vegar á að mikilvægt sé að leggja áherslu á valfrelsi lántakenda og skapa þannig aðstæður sem stuðla að fjölbreytni í lánakostum.
„Ekki er lagst gegn því að vægi óverðtryggðra lána aukist, ef lántakendur velja þann kost, en forsenda þess að sá valkostur verði farsæll til lengdar er að jafnvægi náist í efnahagsmálum Íslands,“ segir í umsögn hópsins. Lykilatriði sé að gjaldmiðillinn haldist stöðugur og verðbólgan lág.
„Lífeyrissjóðir munu alltaf geta boðið upp á óverðtryggð lán, en eftir því se móvissa með verðbólguhorfur eru meiri er líklegt að slík lán verði dýrari en verðtryggð lán,“ segir jafnframt.
Það orki því tvímælis að einskorða framboð íbúðalána við óverðtryggð lán áður en stöðugleika sé náð í efnahagsmálunum.
Sjá frétt Morgunblaðsins: Lífeyrissjóðir mótfallnir afnámi beinna fasteignalána