Ferðaþjónusta oft undanþegin VSK

Ferðamenn eru væntanlega kátir yfir því ýmis þjónusta sem þeir …
Ferðamenn eru væntanlega kátir yfir því ýmis þjónusta sem þeir nýta hér á landi sé undanþegin virðisaukaskatti. mbl.is/Ómar

Fjölmargar atvinnugreinar sem tengjast ferðaþjónustu eru undanþegnar virðisaukaskatti og ljóst er að ríkissjóður verður af stórum upphæðum vegna þess á hverju ári. Þannig er öll starfsemi sem flokkast undir fólksflutninga undanþegin skattinum sem og söfn, starfsemi ferðaskrifstofa, heilsulindir og útleiga á vélsleðum og hestum þar sem leiðsögumaður er til staðar.

Þá er ótalið að hótel- og gistiþjónusta er í lægra þrepi virðisaukaskattsins og er aðeins greiddur 7% skattur í stað 25,5% eins og af stórum hluta annarrar þjónustugreina. Sala veitinga á veitingastöðum fellur einnig í lægri flokkinn þar sem um matvörur er að ræða.

Rútuakstur og ferðir á stórum jeppum

Undir fólksflutningaliðinn flokkast allur rútuakstur, ferðir á stórum jeppum og strætóakstur. Leigubílaakstur er þó ekki undanþeginn og ekki heldur bílaleigubílar. Söfn þar sem veitingastarfsemi er ekki hluti starfseminnar eru einnig undanþegin, sem og tónleikar, en tengist það beint, svo sem á skemmtistöðum, er starfsemin ekki undanþegin.

Sú þjónusta sem ferðaskrifstofur eru milligönguaðili um að selja er einnig undanþegin, en ef ferðaskrifstofan fer út í virðisaukaskattskylda starfsemi fellur hún niður. Undir heilsulindir og heilsurækt falla t.d. sundstaðir. Þannig eru bæði Bláa lónið og Jarðböðin í þeim flokki sem og Laugadalslaug í Reykjavík. Líkamsræktarstaðir heyra þar einnig undir. Öll leiga á hestum, vélsleðum eða öðrum slíkum tækjum sem er undir leiðsögn er einnig undanþegin skattinum.

Fyrirtækin geta ekki nýtt innskatt

Ekki er þó hægt að segja að ríkissjóður verði af fjórðungi heildarsölunnar í formi skatta, því sú þjónusta sem er undanþegin virðisaukaskatti fær heldur ekki að draga innskatt frá útskatti og fær ekki endurgreiðslu frá ríkinu. Engu að síður er um stórar upphæðir að ræða sem fljótar eru að ná nokkrum milljörðum.

Erfitt er að finna nákvæmar tölur um ferðaþjónustu, en það er eitt af því sem talsmenn ferðaþjónustunnar hafa lengi bent á að vanti. Á vef Hagstofunnar má finna ferðaþjónustureikninga frá 2009 til 2011, en þar er gerð tilraun til að flokka ferðaneyslu ferðamanna í mismunandi flokka.

Þjónusta sem skiptir milljörðum

Gistiþjónusta er skrifuð fyrir um 12 milljörðum, en flutningar á landi og sjó tæplega sex milljörðum. Þjónustukaup í gegnum ferðaskrifstofur nemur tæplega fimm milljörðum. Önnur þjónusta tengd flutningum, menning og afþreying og ýmis önnur þjónusta telja svo fyrir samtals um 15 milljarða.

Síðan árið 2010 hefur fjöldi ferðamanna aukist rúmlega tvöfalt og má því ætla að þessar tölur hafi einnig tvöfaldast. Það þarf ekki að setja háa prósentu þar á til að sjá að ríkissjóður verður af töluverðum upphæðum ár hvert með þessum undanþágum sem ná til stórs hluta af þeirri ferðaþjónustu sem veitt er hér á landi.

Ekki bara fyrir ferðaþjónustuna

Taka skal fram að undanþágurnar hafa ekki allar verið settar til að koma til móts við ferðaþjónustuna, heldur flokkast stór hluti af ferðatengdri þjónustu í þjónustuflokka sem einnig gagnast heimamönnum. Þannig á undanþágan um fólksflutninga við um strætó og rútur almennt og undanþágan sem heilsulindir eins og Bláa lónið og Jarðböðin njóta kemur einnig til góða fyrir almenna sundstaði og líkamsræktarstaði.

Þá er ljóst að ef undanþágur yrðu aflagðar myndi það hækka verð töluvert fyrir ferðamenn, allt að 25,5%. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK