Már hugsar sér til hreyfings

Már Guðmundsson, seðlabankastjóri.
Már Guðmundsson, seðlabankastjóri. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Már Guðmundsson segist í nokkur ár hafa haft hug á að skoða möguleikann á að hverfa á ný til starfa erlendis, „áður en aldursmörk hamla um of“. Hann segir því óvíst að hann muni sækjast eftir að sitja áfram, verðir gerðar breytingar á stjórnskipun bankans, með fjölgun seðlabankastjóra.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, skipaði í dag Má aftur í embætti seðlabankastjóra til fimm ára. Fyrir nokkrum dögum tjáði Bjarni þá skoðun sína að hann hallist æ meira að því að rétt væri að fjölga seðlabankastjórum. Þrír banka­stjór­ar voru áður í Seðlabank­an­um en nú­ver­andi lög gera aðeins ráð fyr­ir ein­um slík­um. Laga­breyt­ing yrði því að koma til ætti að skipa fleiri seðlabanka­stjóra. Nefnd hefur verið skipuð um heildarendurskoðun laganna.

Í yfirlýsingu frá Má í dag segist hann telja fulla þörf á þeirri endurskoðun. „Endurskoðunin mun að mínu mati kalla á einhverjar breytingar varðandi stjórnskipun bankans. Þar eru mismunandi kostir í boði og ég get ekki spáð fyrir um hver endanleg ákvörðun Alþingis verður í þeim efnum. Hitt er mér ljóst að þær breytingar gætu haft í för með sér að endurráðið yrði í yfirstjórn bankans. “

Staðan mun breytast á næstu misserum

Um leið og Már þakkar Bjarna traustið, segist hann jafnframt telja rétt að upplýsa að hann hafi í nokkur ár hugsað sér til hreyfings. „Ég taldi ekki heppilegt að gera það nú í ljósi ástandsins og verkefnastöðunnar í Seðlabankanum auk fjölskylduaðstæðna. Þetta mun breytast á næstu misserum. Það er því óvíst að ég myndi sækjast eftir endurráðningu komi til slíks ferlis vegna breytinga á lögum um Seðlabanka Íslands á næstu misserum.

Már starfaði sem aðstoðarframkvæmdastjóra peningamála- og hagfræðisviðs Alþjóðagreiðslubankans í Basel í Sviss, áður en hann var skipaður seðlabankastjóri árið 2009.

Nú liggur fyrir að snúa sér að fullum krafti að þeim miklu verkefnum sem við blasa varðandi það að losa fjármagnshöft, varðveita verðstöðugleika, styrkja umgjörð um fjármálastöðugleika og efla Seðlabanka Íslands enn frekar sem stofnun sem glímir við stærri verkefni en oftast áður í sögu sinni,“ segir Már og þakkar jafnframt starfsfólki Seðlabanka Íslands fyrir mikla og góða vinnu á því tímabili sem nú er að ljúka.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK