Gengi hlutabréfa Icelandair Group féll um 4,35% í 758 milljóna króna viðskiptum í dag. Viðmælandi mbl.is, sem starfar á fjármálamarkaði, segir að rekja megi lækkunina að stórum hluta til skjálftaóróans við Bárðarbungu á Vatnajökli.
Eins og fram hefur komið ákvað Veðurstofa Íslands að hækka viðvörunarstig fyrir flugmálayfirvöld og því er Bárðarbunga merkt með appelsínugulu samkvæmt litakóða. Appelsínugult er næst efsta viðvörunarstig.
Gengi hlutabréfa Vodafone lækkaði jafnframt í dag, um 1,94%, í 76 milljóna króna viðskiptum. Hlutabréf N1 og Eimskips voru þau einu sem hækkuðu í verði í dag, en hækkunin var þó ekki mikil.
Alls lækkaði Úrvalsvísitalan um 1,73% í viðskiptum dagsins og stóð í lok dags í 1.129,98 stigum.