Bandaríski bankinn Bank of America hefur samþykkt að greiða 16,7 milljarða Bandaríkjadala í stjórnvaldssekt fyrir að hafa afvegaleitt yfirvöld sem rannsökuðu gæði fjármálavafninga sem bankinn seldi.
Rannsóknin beindist að fyrirtækinu Countrywide Financial, sem var einn stærsti lánveitandinn í Bandaríkjunum þegar kreppan skall á. Fjármálafyrirtækið Merryll Lynch seldi einnig fjárfestum húsnæðislán sín án þess að útskýra þó fyrir þeim áhættuna sem fólgin var í þeim. Bæði þessi fyrirtæki enduðu svo í eigu Bank of America í kjölfar hrunsins og er það því bankinn sem greiðir sektina.
Tony West, aðstoðarsaksóknari í málinu lýsti því svo fyrir fjölmiðlum: „Þetta er eins og að fara út í búð til þess að kaupa mjólk sem auglýst er fersk og góð, en það sem þú veist ekki er að mjólkin er búin að standa ókæld í heilan dag. Síðan kemur þú heim til þín og kemst að því að mjólkin er súr.“
„Þetta gerðist hjá öllum þeim sem keyptu þessi lán, margir fjárfestar og lífeyrissjóðir. Allt í einu sátu þeir uppi með milljarða tap, þegar lánin voru ónýt,“ segir West.
Sektin sem bankinn greiðir, leiðir til þess að hagnaður bankans á öðrum ársfjórðungi minnkar töluvert, niður í 5,3 milljarða Bandaríkjadala.
Sjá frétt BBC