Verið er að vinna að ýmsum útfærslum sem gætu gert erlendum tryggingafélögum kleift að halda áfram að ávaxta sparnað einstaklinga í erlendum gjaldeyri. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hafa viðræður Seðlabankans við fulltrúa þeirra félaga sem eru með starfsemi á Íslandi miðað að því að kanna hvort hægt sé að útfæra ólíkar leiðir þannig að gjaldeyrisflæði til og frá landinu vegna þessara afurða hafi ekki neikvæð áhrif á greiðslujöfnuð Íslands.
Til að svo geti orðið er hins vegar ljóst að félögin þyrftu að ráðstafa auknum fjárhæðum erlendis frá til fjárfestinga á Íslandi með einum eða öðrum hætti. Líklegt er að sú upphæð þurfi að hlaupa á milljörðum króna. Á liðnu ári, samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins, var nettó gjaldeyrisútflæði vegna starfsemi félaganna neikvætt um tæplega sex milljarða króna. Heildarútflæði vegna iðgjaldagreiðslna á grundvelli sparnaðarsamninga var um níu milljarðar króna en á móti kom fjármagnsinnflæði upp á ríflega þrjá milljarða. Þar er um að ræða uppsafnaðan sparnað sem einstaklingar fluttu til landsins í gjaldeyri og einnig greiðslur í þóknanir til söluaðila tryggingafélaganna.
Það sem gæti greitt fyrir lausn í þessum efnum er að við þá aðgerð stjórnvalda að gera fólki mögulegt að nýta viðbótarlífeyrissparnað til lækkunar á höfuðstól íbúðalána er viðbúið að það dragi úr gjaldeyrisútflæði á næstu árum vegna greiðslna í viðbótarlífeyrissparnað í erlendri mynt. Gjaldeyrisútflæði vegna sparnaðarafurða erlendu félaganna er að langstærstum hluta tilkomið vegna greiðslna í viðbótarlífeyrissparnað.
Þannig ætti að draga umtalsvert úr því nettó-gjaldeyrisútflæði sem hlýst af samningum tryggingafélaganna um sparnað í erlendum gjaldeyri sem gerðir voru eftir setningu hafta. Eigi erlendu tryggingafélögin að geta fengið heimild til að ávaxta sparnað erlendis í samræmi við reglur um gjaldeyrismál þurfa þau að tryggja að að jafn mikið gjaldeyrisinnflæði komi að minnsta kosti inn í landið á móti því fjármagnsútflæði sem stafar af starfsemi þeirra hérlendis. Slíkt er forsenda fyrir mögulegri undanþágu frá fjármagnshöftum.
Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins eru þær leiðir sem hafa verið útfærðar í viðræðum við tryggingafélögin hugsaðar þannig að aðrir aðilar á þessum markaði hér á landi, einkum lífeyrissjóðir og fjármálafyrirtæki, geti einnig með sambærilegum hætti boðið einstaklingum upp á sparnað í erlendri mynt. Þannig væri hægt að ímynda sér að það yrði gert í samstarfi við eignastýringarfyrirtæki erlendis sem myndu þá sjá um að ávaxta sparnaðinn en kæmu á móti með gjaldeyri til landsins í formi fjárfestinga í íslenskum fjármálagerningum á borð við ríkisskuldabréf.
Á meðal samkeppnisaðila er þrýst á yfirvöld um að það sé gætt að jafnræði. Í svari frá Samtökum fjármálafyrirtækja segir að „samtökin og einstaka aðildarfélag hafa verið í samskiptum við Seðlabankann vegna þessa máls og bent ítrekað á þá mismunun sem hefur ríkt milli íslenskra og erlendra fjármálafyrirtækja á þessum markaði frá því að gjaldeyrishöftin voru sett. SFF hafa einnig bent á að ótækt sé að starfsemin verði heimiluð áfram án þess að íslenskum fjármálafyrirtækjum verði gert kleift að bjóða sambærilegar vörur.“
Frá því að Seðlabankinn tilkynnti fyrir um tveimur mánuðum að hann myndi stöðva gjaldeyrisviðskipti tryggingafélaganna á grundvelli ólöglegra samninga um sparnað hafa viðræður staðið yfir við fulltrúa félaganna á Íslandi og forsvarsmenn þeirra erlendis. Það var Morgunblaðið sem upplýsti fyrst um fyrirhugaðar aðgerðir Seðlabankans 17. júní síðastliðinn.
Eyjólfur Lárusson, framkvæmdastjóri Allianz á Íslandi, hafði ekki tök á því að ræða við blaðamann þegar eftir því var leitað.
Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, sem gætir hagsmuna vátryggingamiðlara á Íslandi, segir í samtali við Morgunblaðið að stefnt sé að því að niðurstaða fáist í viðræður við Seðlabankann í þessum mánuði. Hvorki samtökin né vátryggingamiðlarar hafi hins vegar aðkomu að þeim heldur séu þær beint við fulltrúa breska líftryggingafélagsins Friends Provident sem miðlarar á Íslandi hafa selt tryggingar fyrir. „Þeir hafa upplýst okkur að það sé ekkert í spilunum sem gefi til kynna að gripið verði til neinna drastískra aðgerða á borð við riftun samninga.“
Frá og með síðustu mánaðamótum hætti Friends Provident allri sölu á nýjum samningum á Íslandi. Sú ákvörðun tengdist ekki aðgerðum Seðlabankans enda höfðu stjórnendur félagsins tekið þá ákvörðun sl. vor að hætta frekari starfsemi hér landi. Félagið mun þó vitaskuld halda áfram að þjónusta þá samninga sem eru í gildi.
Forsvarsmenn erlendu félaganna og tryggingamiðlarar þeirra hérlendis hafa ítrekað haldið því fram að aðgerðir Seðlabankans hafi komið þeim í opna skjöldu enda hafi þeir talið sig starfa eftir tilmælum Seðlabankans. Í því samhengi hefur verið vísað til þess að Seðlabankinn eigi að hafa staðfest í bréfi 12. febrúar 2009 að samningar félaganna væru ekki brot á reglum um fjármagnshöft þar sem um hafi verið að ræða samninga sem fælu í sér kaup á þjónustu.
Seðlabankinn lítur málið þó allt öðrum augum og segir að engin slík svör hafi verið gefin. Bankinn hafi ávallt gert þann fyrirvara að viðskiptum félaganna væri þannig háttað að iðgjaldagreiðslum mætti aðeins ráðstafa til kaupa á líf- og sjúkdómatryggingum en ekki til sparnaðar að neinu leyti. Það sé einnig alltaf á ábyrgð félaganna sjálfra að tryggja að starfsemin sé ekki í trássi við reglur um fjármagnshöft. Á því hafi orðið misbrestur enda ljóst að iðgjaldagreiðslum var í reynd ráðstafað að langstærstum hluta til fjárfestingar í sparnaði í erlendri mynt.
Áætlað er að yfir 30.000 einstaklingar hafi gert slíka samninga um sparnaðarleiðir við erlend tryggingafélög eftir setningu fjármagnshafta 28. nóvember 2008. Umboðsmenn og tryggingamiðlarar félaganna buðu viðskiptavinum upp á ýmsar afurðir – viðbótartryggingavernd, reglubundinn sparnað, söfnunartryggingar og eingreiðslulíftryggingar – þar sem iðgjaldagreiðslum var varið til söfnunar höfuðstóls í erlendum gjaldeyri. Umsvif þessara félaga á Íslandi, fyrst og fremst Allianz, Bayern Lebensversicherung AG og Friends Provident, hafa aukist umtalsvert á síðustu fimm árum. Talið er að hartnær helmingur Íslendinga sem greiða í séreignalífeyrissparnað séu í viðskiptum við erlend tryggingafélög.
Vöxtur gjaldeyrisútstreymis vegna aukinna umsvifa vátryggingamiðlara stóð yfir allt þar til Seðlabankinn steig það skref að stöðva viðskiptin fyrr í sumar. Meðalaukning gjaldeyrisútflæðis vegna samninga tryggingafélaganna, samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins, nam um 20% á hverju ári. Á fyrstu mánuðum þessa árs var útflæðið orðið ríflega 850 milljónir króna að meðaltali á mánuði eða um tíu milljarðar króna á ársgrundvelli. Til samanburðar spáir Seðlabankinn því að undirliggjandi viðskiptagangur þessa árs verði um 15 milljarðar. Hefur útflæði gjaldeyris vegna þessara sparnaðarafurða meira en tvöfaldast frá árinu 2009 og endurspeglar það þá sprengingu sem hefur orðið í starfsemi vátryggingamiðlara hérlendis. Að óbreyttu er áætlað að heildargjaldeyrisútflæði vegna erlendu tryggingafélaganna frá setningu hafta verði 46 milljarðar í árslok 2014.
Samkeppnisaðilar erlendu tryggingafélaganna hérlendis – lífeyrissjóðir og fjármálafyrirtæki – höfðu löngum kvartað undan því ójafnræði sem hafði ríkt á þessum markaði frá setningu hafta enda var þeim óheimilt að verja iðgjaldagreiðslum til fjárfestingar í erlendum verðbréfum. Þennan aðstöðumun nýttu söluaðilar tryggingafélaganna sér og lögðu á það áherslu í markaðssetningu sinni að geta boðið upp á ávöxtun sparnaðar í erlendri mynt.
Líklegt má telja að ef innlendum samkeppnisaðilum hefði verið veitt heimild til að ráðstafa iðgjaldagreiðslum í viðbótarlífeyrssparnað til erlendra fjárfestinga, líkt og tryggingafélögin hafa gert, þá hefði slíkt getað orsakað verulegt gengisfall krónunnar. Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins áætlar Seðlabankinn að heildarútflæði innlendra aðila í sparnað erlendis gæti numið, aðeins á grundvelli viðbótarlífeyrissparnaðar, allt að 45 milljörðum króna á ári. Frá setningu hafta hefði útflæðið því getað verið upp undir 300 milljörðum króna en til samanburðar var uppsafnaður viðskiptaafgangur Íslands á tímabilinu 2009-2013 um 380 milljarðar króna. Ekki þarf að velkjast í vafa um að útflæði af þeirri stærðargráðu hefði valdið mjög alvarlegum óstöðugleika í gengis- og peningamálum – og því ekki að ástæðulausu að slík fjármagnsviðskipti hafa verið bönnuð.
Skilningur Seðlabankans á þeim afurðum sem tryggingafélögin seldu hér á landi var sem fyrr segir í fyrstu sá að um væri að ræða líftryggingaafurðir sem teldust þjónustukaup og því ekki brot á lögum um gjaldeyrismál. Heimildir Morgunblaðsins herma að sá skilningur hafi grundvallast á þeim upplýsingum sem tryggingafélögin veittu bankanum um starfsemi sína í árslok 2008. Þetta átti eftir að hafa talsverða þýðingu í för með sér enda hafði Seðlabankinn á grundvelli þessara upplýsinga flokkað viðskiptin undir viðskiptajöfnuð sem féllu þar með ekki undir reglur um fjármagnshöft.
Við nánari athugun Seðlabankans kom aftur á móti í ljós að þær upplýsingar, sem komu meðal annars frá lögmönnum félaganna, reyndust bæði misvísandi og einfaldlega rangar. Sú skoðun – en ráðist var í þessa vinnu sökum ört vaxandi gjaldeyrisútflæðis á grundvelli samninganna – sýndi að þær afurðir sem félögin voru að selja fólu í sér söfnun á höfuðstól í erlendum fjármálagerningum. Slík gjaldeyrisviðskipti flokkast vitaskuld undir fjármagnsjöfnuð og eru því brot á lögum um gjaldeyrismál.
Áður en Seðlabankinn gat hins vegar hrundið í framkvæmd aðgerðum sínum til að stöðva hin ólöglegu gjaldeyrisviðskipti tryggingafélaganna taldi bankinn rétt að ráðfæra sig við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn til að fá staðfest að skilningur sjóðsins væri sá hinn sami og Seðlabankans. Sú staðfesting dróst talsvert á langinn þar sem AGS óskaði eftir nánari útskýringum og greiningu á afurðum tryggingafélaganna. Það var því ekki fyrr en í apríl síðastliðnum að sjóðurinn féllst loksins á túlkun Seðlabankans um að iðgjaldagreiðslur á grundvelli samninga félaganna féllu undir fjármagnsjöfnuð samkvæmt greiðslujafnaðarhandbók sjóðsins. Samtímis staðfesti AGS að aðgerðir Seðlabankans og breytingar á reglum um gjaldeyrismál brytu á engan hátt gegn stofnsáttmála sjóðsins þegar kemur að takmörkunum á fjármagnsflæði milli landa.
Talsverð áhætta hefði falist í því fyrir Seðlabankann að fara fram með aðgerðir sínar án þess að leita fyrst eftir samþykki AGS. Þannig hefði sú staða getað komið upp á síðari stigum að sjóðurinn hefði ekki samþykkt túlkun Seðlabankans að um væri að ræða fjármagnsviðskipti – en slíkt hefði ekki aðeins verið brot á stofnsáttmála sjóðsins heldur einnig EES-samningnum. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hefði Seðlabankinn eftir sem áður ávallt að lokum gripið til þessara aðgerða óháð því hvort samþykki hefði fyrst fengist frá AGS. Nánast óhugsandi var talið að sjóðurinn gæti komist að annarri niðurstöðu en þeirri að viðskiptin féllu undir fjármagnsjöfnuð – og því nægjanlega rík og lögmæt ástæða fyrir íslensk yfirvöld til að grípa í taumana.
Samskiptin við AGS voru því veigamikil ástæða þess hversu langan tíma það tók fyrir Seðlabankann að stöðva gjaldeyrisviðskipti tryggingafélaganna. Enn meira máli skipti þó í þeim efnum sú gríðarlega vinna sem fór í að greina ólíkar sparnaðarafurðir félaganna og tryggja að fjárhagslegt tjón einstaklinga yrði lágmarkað samhliða aðgerðunum. Á því leikur lítill vafi að ef gjaldeyrisviðskiptin hefðu umsvifalaust verið stöðvuð, án þess að undirbúa eftirleikinn, þá hefði slíkt getað sett samninga tugþúsunda einstaklinga í uppnám.
Til að koma í veg fyrir slíkar afleiðingar þurfti Seðlabankinn því að útbúa ýmsar leiðir, sem kölluðu á bæði varanlegar og tímabundnar undanþágur frá höftum, þannig að hægt yrði að viðhalda samningssambandi einstaklinga við tryggingafélögin. Einstaklingum yrði gert kleift að standa við gerða samninga í krónum á reikning í eigu tryggingafélagsins hérlendis.
Seðlabankinn veitti einnig tímabundna undanþágu til fjögurra mánaða – til 19. október næstkomandi – þar sem einstaklingum er heimilað að greiða samkvæmt samningi í gjaldeyri. Markmiðið var að gefa aðilum svigrúm til að skilmálabreyta samningum í íslenskar krónur eða fara í ótímabundið greiðsluhlé. Þá mega erlendu tryggingafélögin fjárfesta í íslenskum verðbréfum og fasteignum útgefnum í krónum. Fá félögin því sambærilegar fjárfestingaheimildir og til að mynda íslenskir lífeyrissjóðir og geti þannig tryggt rétthöfum sömu ávöxtun.
Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins var það kannað ýtarlega af hálfu Seðlabanka Íslands hvort þær breytingar sem gerðar voru á lögum um gjaldeyrismál gætu bakað bankanum skaðabótaábyrgð gagnvart umboðsmönnum hinna erlendu tryggingafélaga eða þeim einstaklingum sem gert hefðu samninga við félögin eftir setningu fjármagnshafta. Niðurstaða þeirrar vinnu, sem var byggð á lögfræðiáliti sem Seðlabankinn óskaði eftir, sýndi að bankinn væri ekki á neinn hátt í skaðabótaábyrgð á því tjóni sem einstaklingar kynnu að verða fyrir. Ávallt hefði legið fyrir að þeim væri óheimilt að efna til samninga um viðbótarlífeyrissparnað og söfnunartrygginga í erlendum gjaldeyri. Að sama skapi getur Seðlabankinn ekki verið skaðabótaskyldur út af því tjóni sem erlend tryggingafélög og/eða umboðsmenn þeirra hérlendis geta hugsanlega orðið fyrir vegna þess að einstaklingum væri ekki heimilt að standa við samninga sína.
Fram hefur komið í yfirlýsingu frá Seðlabankanum að ekki verði hafin rannsókn á einstaklingum sem gert hafi samninga um sparnað við tryggingafélögin eftir að höftin tóku gildi. Gengur Seðlabankinn út frá því að þeir einstaklingar hafi verið í góðri trú um að slíkir samningar væru í samræmi við lög um gjaldeyrismál. Seðlabankinn hefur hins vegar ekki kannað sérstaklega hvort tryggingafélögin og umboðsmenn þeirra geti verið skaðabótaskyldir gagnvart viðskiptavinum sínum.
Tryggingamiðlarar og sölumenn fyrir hin erlendu tryggingafélög með starfsemi á Íslandi eiga sjálfir gríðarlega hagsmuni undir að samningssambandi einstaklinga við félögin verði viðhaldið. Ef samningum rétthafa yrði rift og iðgjaldagreiðslur myndu í kjölfarið stöðvast gætu margir innlendir sölumenn lent í þeirri stöðu að þurfa að endurgreiða erlendu félögunum umtalsverðar fjárhæðir vegna þóknana sem þeir kusu að fá greiddar fyrirfram.
Andrés Magnússon, sem gætir meðal annars hagsmuna vátryggingamiðlarara sem hafa selt sparnaðarafurðir fyrir Friends Provident, staðfestir þetta í samtali við Morgunblaðið. „Það eru þess vegna afar ríkir hagsmunir fyrir tryggingamiðlara að þetta samningssamband rofni ekki,“ segir Andrés.
Við sölu á samningum um sparnaðarafurðir til einstaklinga hérlendis fá sölumenn erlendu tryggingafélaganna greidda þóknun sem ræðst af heildarverðmæti hvers samnings fyrir sig. Þannig hafa þeir iðulega geta valið á milli þess að fá þóknunina greidda fyrirfram eða yfir líftíma samningsins. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hafa söluaðilar oftar en ekki kosið að fá þóknunina greidda alla fyrirfram frá erlendu tryggingafélögunum þegar gengið hefur verið frá samningum við viðskiptavini.
Rofni samningssambandið þá eiga erlendu tryggingafélögin endurgreiðslukröfu á hendur söluaðilum vegna ofgreiddra þóknana. Ekki þarf að fjölyrða um hvaða fjárhagslegu þýðingu það kynni að hafa fyrir marga söluaðila ef mörgþúsund samningum sem einstaklingar hafa gert við tryggingafélögin eftir setningu hafta yrði rift. Þyrftu þeir að greiða félögunum erlendis til baka háar fjárhæðir sem gætu samtals hlaupið á hundruðum milljóna króna, ef ekki milljörðum.
Samkvæmt áreiðanlegum upplýsingum Morgunblaðsins nema greiðslur til söluaðila á Íslandi frá hinum erlendu tryggingafélögum um fjórum milljörðum króna á árunum 2009 til 2013. Samtals starfa um 150 manns fyrir fyrirtæki hér á landi sem hafa milligöngu um að selja sparnaðarafurðir fyrir erlend tryggingafélög, annaðhvort sem umboðsaðilar eða tryggingamiðlarar, og hefur þeim farið fjölgandi á síðustu árum. Því má varlega áætla að þóknanir sem erlend tryggingafélög hafa greitt að meðaltali til einstakra sölumanna þessara samninga nemi tugum milljóna króna á þessu tímabili.
Sú fjárhæð sem innlendir einstaklingar hafa samtals greitt í séreignasparnað lífeyrissjóða og vörsluaðila lífeyrisréttinda nam um 410 milljörðum króna í árslok 2013. Aðeins lítið hlutfall af þeirri fjárhæð er hjá erlendum tryggingafélögum í gjaldeyriseignum – um 24 milljarðar – á sama tíma og ríflega 340 milljarðar af heildarfjárhæð iðgjaldagreiðslna í viðbótarlífeyrissparnað eru bundnir í krónueignum sem eru varslaðar hjá lífeyrissjóðum og innlendum fjármálafyrirtækjum.
Ef hluta þeirra krónueigna, til að mynda 10% af uppsöfnuðum sparnaði, yrði hins vegar skipt í erlendan gjaldeyri eða flutt yfir til hinna erlendu tryggingafélaga þá næmi fjármagnsútflæði af þeim sökum um 34 milljörðum á ársgrundvelli. Það er um tvöfalt hærri fjárhæð en Seðlabankinn gerir ráð fyrir í viðskiptaafgangi á þessu ári.
Nettó-gjaldeyrissköpun þjóðarbúsins myndi því duga skammt til að standa undir slíkum fjármagnsflutningi að óbreyttu – og því myndi afleiðingin verða annaðhvort gengisfall krónunnar eða að gengið yrði á gjaldeyrisforða Seðlabankans.