Gera ekki ráð fyrir fleiri ferðum

Herðubreiðarlindir.
Herðubreiðarlindir. mbl.is/Una Sighvatsdóttir

„Við ætluðum ekki að loka fyrr en í fyrstu vikunni í september þannig að þetta styttir tímabilið okkar töluvert. Þetta þýðir tekjutap upp á 1-2 milljónir og það munar miklu fyrir lítið félag eins og okkur,“ segir Stefán Sigurðsson, gjaldkeri Ferðafélags Akureyrar sem rekur skála á svæðinu sem nú er lokað vegna óvissuástandsins í kringum Bárðarbungu. 

Stefán býst ekki við því að farnar verði fleiri ferðir á svæðið það sem eftir er tímabilsins. „Miðað við það sem við heyrum í fréttum af svæðinu þá finnst mér það afar ólíklegt.“ 

Skála félagsins í Drekagili hefur raunar þegar verið undirbúinn fyrir vetrardvalann. „Við fengum leyfi til þess að fara inn í Drekagil á miðvikudagsmorguninn og við höfum nú undirbúið skálann fyrir frostið með því að taka vatn af húsum og fleira. Við viljum ekki fá frostskemmdir á skálum okkar ofan á allt saman,“ segir Stefán. 

Skálinn í Drekagili er talsvert hátt uppi og því ólíklegt að hann muni verða fyrir hlaupinu ef til þess kemur. „Það hefur hins vegar verið talað um að Herðubreiðarlindir gætu horfið og á því svæði erum við með þrjú hús, skálavarðabústað, snyrtihús og gistiskála fyrir ferðamenn. Við getum ekkert gert nema að krossleggja fingur. Gistiskálinn gæti sloppið en þetta kemur allt saman í ljós.“

Að sögn Stefáns hefur ferðasumarið hingað til verið óvenjugott á svæðinu. „Okkar tilfinning er sú að í Dreka hafi verið fleira fólk heldur en í fyrra. Það gæti líka haft sitt að segja skriðufallið í Öskju, ég ímynda mér að margir hafi komið til þess að skoða það.“

Tveir gönguskálar félagsins eru einnig á svæðinu en þeir eru sjálfir ekki í hættu vegna mögulegra vatnavaxta. Eru þeir þó inni á svæðinu sem skilgreint er sem hættusvæði og því ekki nothæfir sem stendur.

Ef Eiffel-turninn er lokaður...

„Það eru einfaldlega engar ferðir í gangi, allt stopp og ekkert um að vera. Við erum með leiðsögumann og bílstjóra á launum og enga innkomu,“ segir Gísli Rafn Jónsson, framkvæmdastjóri Mývatn Tours. Fyrirtækið býður upp á rútuferðir frá Mývatni að Öskju. Um 30-40 ferðamenn hafa skoðað Öskju á hverjum degi í sumar en svæðið er nú lokað vegna jarðhræringanna. 

Líkt og Stefán segist Gísli ekki bjartsýnn á að hægt verði að hefja ferðir á svæðið aftur í haust. „Mér líst ekkert á stöðuna. Annað hvort fer að gjósa, og þá verður ekki farið þangað í á næstunni, eða þá gýs ekki og þá verður samt áfram lokað,“ segir Gísli.

Hann segir það tilgangslaust að bjóða upp á aðrar ferðir á svæðinu því Askja sé það sem ferðamennirnir vilja sjá. „Ef þú ætlar upp í Eiffel-turninn og hann er lokaður, þá ferð þú ekkert í einhverja sjoppu í staðin. Askja er Askja og fólk er komið til þess að sjá hana.“ 

„Flestir ferðamenn eru á bílaleigubílum en þurfa á okkur að halda til þess að komast þangað sem bílarnir komast ekki. Ef Askja er lokuð, þá einfaldlega fara þeir á staði sem þeir geta nálgast á bílunum sínum,“ segir Gísli.

Hann segir flesta ferðamenn meðvitaða um að nú sé svæðið lokað. „Það er samt þannig að við bókum margar ferðir fyrirfram. Við höfum verið að hafa samband við fólk í rólegheitunum og útskýra fyrir þeim að svæðið sé lokað. Margir spyrja hvort það sé möguleiki á að fara eftir viku en við segjum þeim bara að fylgjast með ástandinu. Ég er ekki bjartsýnn á að það verði farið aftur þangað í ár,“ segir Gísli að lokum. 

Öskjuvatn.
Öskjuvatn. mbl.is/Sigurður Bogi
Gísli Rafn Jónsson, framkvæmdastjóri Mývatn Tours.
Gísli Rafn Jónsson, framkvæmdastjóri Mývatn Tours. Ljósmynd/Birkir Fanndal
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK