„Þetta gerðist svolítið hratt hjá mér. Ég skynja það að hjá svona stórum samtökum vilja menn hafa fast land undir fótunum, þannig að það er unnið hratt að ráðningarmálum,“ segir Almar Guðmundsson, nýráðinn framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins. Almar hefur í nægu að snúast en hann gegnir einnig stöðu formanns knattspyrnudeildar Stjörnunnar auk þess sem hann tók sæti í bæjarstjórn Garðabæjar eftir kosningarnar í vor.
Almar tekur við starfinu af Kristrúnu Heimisdóttur en hún hætti störfum þann 19. ágúst sl. Mun Almar hefja störf þann 1. október en fram að því mun hann áfram starfa hjá Félagi atvinnurekenda þar sem hann hefur verið framkvæmdastjóri undanfarin fimm ár. „Það er mikilvægt þegar maður fer svona á milli staða að hlutirnir séu í góðu horfi þaðan sem maður hverfur frá,“ segir Almar.
Ákvörðunin um að skipta um starfsvettvang var ekki auðveld að sögn Almars. „Hún var það ekki, ekki frekar en svona ákvarðanir eru almennt. En þetta eru auðvitað mjög stórt og krefjandi starf og öflug samtök. Það hefur farið fram sterk fagleg vinna þarna í gegnum tíðina og það kitlaði að taka þátt í henni. Markmiðið er svo að koma nafni samtakanna ennþá betur á framfæri og því sem þeir standa fyrir.“
Mörg verkefni bíða nýráðins framkvæmdastjóra og mun hann nýta tímann fram að því að hann hefur störf vel til þess að undirbúa veturinn framundan. „Almennt eru þetta nokkuð víðfeðm samtök og margs konar iðnaður sem heyrir þar undir og aðstæður eru spennandi. Sameiginlega eru þessi fyrirtæki drifkrafturinn í atvinnulífinu á Íslandi og þurfa að vera það.“
„Sum þeirra skapa útflutningstekjur og önnur eru öflug í sköpun starfa og framleiðni hér á landi. Ég er mjög spenntur fyrir því að leggjast á árarnar með þessum aðilum,“ segir Almar.