Lögbann á ódýra leigubíla

Leigubílar í New York.
Leigubílar í New York. AFP

Lögbann hefur verið lagt við starfsemi leigubílaþjónustunnar vinsælu Uber í Þýskalandi þar til forsvarsmenn hennar hafa aflað allra tilskilinna leyfa.

Þjónusta þeirra virkar þannig að viðskiptavinir geta pantað sér bíl í gegnum app í símanum, fyrir mun lægri fjárhæð en það kostar að taka hefðbundinn leigubíl. Höfuðstöðvar Uber eru í San Francisco í Bandaríkjunum.

Úrskurðurinn féll á fimmtudag en var birtur fyrst í dag. Í honum segir að fyrirtækið verði sektað um tvö hundruð og fimmtíu þúsund evrur ef lögbannið verður virt að vettugi. Það virðist þó ekki ætla að stöðva forsvarsmenn þess, en þeir sendu frá sér yfirlýsingu í dag er segir: „Við erum ennþá með starfsemi í Þýskalandi. Við munum áfrýja og leita allra lagalegra leiða. Við stóðum í sömu deilu í Bandaríkjunum fyrir ári.“

Leigubílstjórar ósáttir við þjónustuna

Fyrirtækið hefur verið starfandi í Þýskalandi frá árinu 2013 og er nú í fimm borgum, þar á meðal Berlín og Frankfurt. Allt frá því að forsvarsmenn þess hófu starfsemina í Þýskalandi hafa þeir hins vegar legið undir stöðugum árásum frá leigubílafyrirtækjum sem segja þá skorta tilskilin leyfi. Formaður félags leigubílstjóra í Þýskalandi fagnaði úrskurðinum í dag. „Við erum ekki hræddir við samkeppni. En hún þrífst aðeins þegar sömu lagaskilyrðin eiga við um alla. Þar á meðal hina nýju á markaðnum. Þjónusta á netinu starfar ekki utan ramma laganna.“

Fyrirtækið er með starfsemi í fjörutíu og tveimur löndum, og þar á meðal rúmlega hundrað borgum í Bandaríkjunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK