Tekjustofnar ríkissjóðs virðast vera að treystast og eru líkur á að ákveðin vatnaskil séu framundan í ríkisfjármálum. Góð greiðsluafkoma kallar á endurmat á tekjuáætlun ríkissjóðs í frumvarpi til fjáraukalaga, sem lagt verður fram í næsta mánuði.
Þetta er á meðal þess sem fram kemur í nýrri skýrslu greiningardeildar Arion banka. „Ef tekjuáætlun ríkissjóðs verður færð upp á við getur það haft töluverð áhrif á áætlaða afkomu ríkissjóðs í ár og einnig smitast yfir á næsta ár við gerð fjárlagafrumvarpsins 2015,“ segir í skýrslunni. Þá segir að hreinn lánsfjárjöfnuður gæti orðið lítill sem enginn á þessu ári eða því næsta. Það þýðir að ríkissjóður þarf ekki lengur að fjármagna hallarekstur með lántöku á innlendum mörkuðum og getur þannig hafið lækkun skulda ríkissjóðs í krónum talið fyrr en áætlað var.
Þrír þættir eru taldir útskýra jákvæðu tekjuþróunina að mestu leyti: Í fyrsta lagi eru aðrar tekjur en skatttekjur og tryggingargjöld umfram áætlanir, en þar ber helst að nefna arðgreiðslur Landsbankans, sem útskýra frávikið nánast að öllu leyti. Í öðru lagi eru skatttekjur á lögaðila og einstaklinga yfir áætlun fjárlaga og í þriðja lagi eru skattar á vöru og þjónustu yfir áætlun.
Í skýrslunni segir að áskorun stjórnvalda sé því að halda útgjaldavexti í hófi við gerð fjáraukalaga og í fjárlagafrumvarpi næsta árs og ráðstafa afgangi af rekstri ríkissjóðs til niðurgreiðslu skulda. „Má segja að það sé mikilvægara nú en oft áður þar sem verðbólguhorfur eru jákvæðar um þessar mundir, en kjarasamningar eru framundan og því skiptir sköpum fyrir verðbólguþróun framundan að ríkisfjármálin styðji við peningamálastefnu Seðlabankans.“