Kraftmiklar hárþurrkur gætu orðið á meðal hefðbundinna heimilistækja sem Íslendingar þurfa að kveðja vegna reglugerða Evrópusambandsins um orkusparnað.
Í skýrslu sem framkvæmdastjórn ESB lét endurskoðunarfyrirtækið Deloitte gera í júlí sl. er mat lagt orkunotkun þrjátíu heimilistækja á borð við ristavélar og hraðsuðukatla og leitað leiða til þess að draga úr henni.
Nýjar reglur Evrópusambandsins um ryksugur tóku gildi í gær en samkvæmt þeim er afl ryksugumótora nú takmarkað við 1.600 W. Þá er ætlunin að framleiðendur trappi kraft mótoranna enn frekar niður á næstu árum og þann 1. september 2017 munu ryksugur ekki mega vera öflugri en 900 W. Einn helsti tilgangur ryksugureglugerðarinnar mun vera að draga úr orkunotkun. Hún nær til Íslands á grundvelli EES-samningsins en ekki er ljóst hvenær reglugerðin verður formlega innleidd á Íslandi.
Í frétt BBC kemur fram að smásalar hafi tekið eftir söluaukningu á kraftmiklum ryksugum að undanförnu og virðist sem almenningur sé að fjárfesta í einni öflugri áður en orðið er um seinan. Stórverslunin Tesco sagði söluaukninguna nema 44 prósent á síðastliðnum tveimur vikum og raftækjaverslunin Electral sagði hana nema um 38 prósent.
Fleiri raftæki en ryksugurnar virðast hins vegar hafa vakið athygli ESB. „Við höfum ekki enn komist í þetta verkefni, en viljum þó draga enn frekar úr orkunotkun,“ sagði Guenther Oettinger, yfirmaður orkumála hjá ESB í samtali við þýska dagblaðið Bild.
Talskona framkvæmdastjórnarinnar sagði þó að framtíð öflugra hárþurrka væri ekki ráðin. „Þetta er skýrsla sem við báðum ráðgjafa okkar um að gera. Þeir munu velja tuttugu af þessum þrjátíu tækjum fyrir lokaskýrslu og í janúar 2015 munum við skoða hverju þeir mæla með og velja þar á milli,“ sagði hún.
Fyrrverandi formaður samtaka hárgreiðslumeistara í Bretlandi, hefur hvatt Evrópusambandið til þess að endurskoða fyrirætlanir sínar. Hann segir að bannið muni ekki draga úr orkunotkun, heldur muni það einfaldlega taka lengri tíma að þurrka hárið. „Þeim mun kraftmeiri, því fljótlegra er að þurrka - það er svo einfalt,“ sagði hann.