ASÍ: Tími ofurlauna runninn upp á ný

Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar.
Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar. mbl.is/Árni Sæberg

Fyrir bankahrun voru árslaun stjórnenda í fjármálafyrirtækjum sambærileg launum 5-6 verkamanna alla starfsævina. Þessi tími virðist kominn aftur, segir í tilkynningu frá ASÍ. 

„Fyrir bankahrun sáum við í íslensku atvinnulífi ævintýraleg kjör stjórnenda í fjármálafyrirtækjum sem  þegar verst lét voru slík að það tæki 5-6 verkamenn alla starfsævina að vinna sér inn laun sem samsvara árslaunum eins manns. Þessi tími virðist kominn aftur. Ný athugun ASÍ sýnir nefnilega að nokkrir forstjórar fyrirtækja á hlutabréfamarkaði eru með tugföld árslaun venjulegs launafólks.

Til að setja kjör æðstu stjórnenda í samhengi er gagnlegt að skoða þau í samanburði við aðra hópa. Til að gera það höfum við reiknað svokallað launahlutfall forstjóra í öllum íslenskum fyrirtækjum sem skráð voru á hlutabréfamarkaði í júlí 2014. Launahlutfallið skoðum við annars vegar út frá meðallaunum fullvinnandi verkafólks í landinu -  sem segir til um hversu  marga fullvinnandi verkamenn þarf til að vinna fyrir launum æðsta stjórnanda fyrirtækisins. Hins vegar skoðum við launahlutfallið út frá meðallaunum starfsmanna í viðkomandi fyrirtæki – sem segir til um hversu marga almenna starfsmenn viðkomandi fyrirtækis þarf til að vinna fyrir launum æðsta stjórnandans. Skoðaðar eru tölur fyrir árin 2011 – 2013.

Upplýsingar um launakjör æðstu stjórnenda eru fengnar úr ársreikningum fyrirtækjanna,“ segir í tilkyningu frá ASÍ. 

Þar eru laun þeirra forstjóra sem eru með hæstu launin skoðuð:

„Kjör æðstu stjórnenda í skráðum almenningshlutafélögum hér á landi eru nokkuð misjöfn enda starfsemi og markaðssvæði fyrirtækjanna ólík. Nokkur fyrirtæki skera sig þó verulega úr.

Forstjórar Össurar, Haga og Eimskip með hæstu launin

Forstjóri Össurar trónir á toppi skráðra félaga en hann hafði hafði launatekjur í fyrra sem jafngilda meðallaunum 31 verkamanns. Breytingin frá árinu 2011 þegar launatekjur forstjóra Össurar námu ríflega 39 verkamannalaunum skýrist að hluta til af gengisáhrifum þar sem fyrirtækið gerir upp í dollurum en að mestu af lægri árangurstengdum greiðslum.

Forstjóri Haga hafði launatekjur á rekstrarárinu 2013/14 sem samsvöruðu launum tæplega 15 verkamanna. Sveiflurnar milli ára í launum forstjóra Haga eru miklar en á rekstrarárinu 2011/12 hafði hann laun sem jafngiltu ríflega 30 verkamannalaunum.  Breytingin milli ára felst fyrst og fremst því að 2011 fékk forstjórinn tæplega 76 milljónir króna í hlutabréfatengd hlunnindi og á rekstrarárinu 2012/13 um 22 milljónir en slík hlunnindi voru ekki greidd til forstjórans á síðasta ári.  

Forstjóri Eimskipafélagsins hafði í fyrra launatekjur sem jafngiltu launum ríflega 17 fullvinnandi verkamanna sem er hækkun frá árinu áður þegar tekjurnar námu ríflega 15 verkamannalaunum. Breytingin skýrist einungis að litlu leyti af gengisbreytingum en félagið gerir upp í Evrum, heldur fyrst og fremst af hækkun á launum og öðrum hlunnindum milli ára.

Marel skipti um mann í brúnni á síðari hluta árs 2013. Fyrrum forstjóri hafði á árunum 2011 og 2012 launatekjur um 20 fullvinnandi verkamanna en fékk á árinu 2013 þegar hann lét af störum um 480 milljónir króna í laun. Sú upphæð jafngildir launum ríflega 86 fullvinnandi verkamanna eða samsvarandi því sem tekur tvo verkamenn alla starfsævina að vinna sér inn. Nýr forstjóri fékk nokkuð lægri laun en fyrirrennari sinn en mánaðarlaun fyrir þann tíma sem hann var í starfi á árinu 2013 námu ríflega 12 verkamannalaunum.

Í flestum öðrum skráðum félögum nema laun æðsta stjórnandans á bilinu 5-8 verkamannalaunum en eru  nokkuð hærri hjá N1 þar sem hlutfallið nam ríflega 10 í fyrra. Forstjóraskipti urðu hjá N1 á haustmánuðum 2012 og miðast launahlutfall fyrir það ár við kjör og starfstíma nýs forstjóra. Fyrri forstjóri sem hafði á árinu 2011 samsvarandi ríflega 7,5 verkamannalaunum í launatekjur hjá félaginu fékk á árinu 2012 þegar hann lét af störfum að auki greiddar tæplega 40 milljónir króna eða sem jafngildir um 12 verkamannalaunum á þeim tíma sem hann var starfandi hjá félaginu það ár.

Nokkrar sveiflur eru í launum æðstu stjórnenda margra félaga milli ára sem skýrist að líkindum m.a. af mis háum bónus- eða hvatagreiðslum milli ára. Launatekjur forstjóra fasteignafélagsins Regins námu t.a.m. ríflega 3 verkamannalaunum á árinu 2011 en hafa síðan hækkað umtalsvert og voru í fyrra samsvarandi tæplega 5 verkamannalaunum,“ segir í tilkynningu frá ASÍ.

Finnur Árnason, forstjóri Haga og Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinar
Finnur Árnason, forstjóri Haga og Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinar mbl.is/Golli
Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskips,
Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskips, Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK