„Staðan nú gefur færi á að rétta hag lægst launuðu starfsmanna fyrirtækisins,“ segir Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður VR, um Haga og vísar til þess að laun og bónusar sex æðstu stjórnenda fyrirtækisins námu um 240 milljónum króna á árinu 2013.
Ólafía bendir í grein sinni á vefsvæði VR á að hagnaður Haga á árinu 2013 hafi numið 3,9 milljörðum króna. Þá skiluðu Hagar á fyrsta ársfjórðungi þessa árs 939 milljóna króna hagnaði og hlutabréf fyrirtækisins hafi næstum því þrefaldast í verði frá því það var skráð á markað.
„Nú er lag fyrir Haga að deila ávinningnum til allra starfsmannam,“ segir Ólafía og hvetur stjórnendur Haga til að tryggja það að allir 1.600 félagsmenn VR hjá fyrirtækinu fái hlutdeild í góðri afkomu þess enda séu það starfsmenn sem standi að baki verðmætasköpun fyrirtækisins.