Þrotabú Smáís, Samtaka myndrétthafa á Íslandi, var tekið til gjaldþrotaskipta þann 27. ágúst með úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur. Skorað var á kröfuhafa að lýsa kröfum innan tveggja mánaða í Lögbirtingarblaðinu í dag.
Stjórn Smáís óskaði eftir gjaldþrotaskiptunum um miðjan ágúst og var ástæðan sögð vera brot Snæbjarnar Steingrímssonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra samtakanna. Rúv greindi frá því að staðhæft væri í skiptabeiðninni að ársreikningar félagsins hefðu verið falsaðir um árabil, opinberum gjöldum hefði ekki verið skilað með réttum hætti og vanrækt hefði verið að færa bókhald. Þá var framkvæmdastjórinn sagður hafa viðurkennt fjárdrátt fyrir stjórninni.
Mbl.is greindi frá því í maí að stjórn Smáís hefði kært Snæbjörn til embættis sérstaks saksóknara. Í tilkynningu samtakanna sagði að ákvörðunin hefði verið tekin eftir að fjárreiður samtakanna voru skoðuð við starfslok Snæbjörns.
Smáís voru stofnuð árið 1992 til þess að gæta hagsmuna rétthafa myndefnis á Íslandi. Hafa þau í gegnum tíðina meðal annars krafist lögbanns á skráardeilisíðurnar Pirate Bay og Deildu.net. Meðlimir Smáís eru Samfélagið, Sena, Myndform, 365 Miðlar, Rúv og Skjárinn.