Áætlað er að tekjur ríkissjóðs af bankaskatti verði nálægt 39 milljörðum króna fyrir árin 2014 og 2015 og gert er ráð fyrir að hann verði umtalsverður hluti af tekjuöflun ríkissjóðs til ársins 2017.
Bankaskatturinn var lögfestur á árinu 2010 en var hins vegar hækkaður verulega í fjárlagafrumvarpi síðasta árs, eða úr 0,041% í 0,145%. Skatturinn var hækkaður enn frekar í meðferð þingsins, eða í 0,376%. Þá var undanþága fyrirtækja í slitameðferð til að greiða skattinn afnumin í desember 2013. Var þetta gert til þess að standa undir áformum ríkisstjórnarinnar um skuldaniðurfellingar á verðtryggðum íbúðalánum.
Skatturinn hefur þó ekki enn verið lagður á fjármálafyrirtæki en gjalddagi hans er ekki fyrr en 31. október. Hafa vangaveltur verið uppi um lögmæti hans og segir formaður slitastjórnar Glitnis, Steinunn Guðbjartsdóttir, að þrotabúið muni að öllu óbreyttu láta reyna á lögmæti hans eftir álagningu. Í samtali við mbl sagði hún að búið væri að vinna lögfræðilega greiningu á lögmæti bankaskattinn fyrir hönd slitastjórnarinnar.
Eitt atriðið segir hún snúa að því, að með því að skattleggja skuldir þrotabúanna sé verið sé að skattleggja skuldir sem aldrei fást greiddar.
Í umsögn Glitnis um tekjuaðgerðir fjárlagafrumvarpsins 2014 segir að skattlagningin sé hvorki málefnaleg né rökrétt. „Það fyrirkomulag frumvarpsins að gera skuldir að andlagi skattheimtu er því, að mati Glitnis, algjört fráhvarf frá hefðbundnum meginreglum og viðmiðum skattaréttarins þegar kemur að álagningu skatta.“
Þá er bent á að fyrirtækin séu einmitt í slitameðferð vegna þess að þau gátu ekki staðið undir öllum skuldbindingum sínum „auk þess sem þegar liggur fyrir að hluti þessara
krafna mun falla niður við lok slitameðferðarinnar þar sem eignir slitabúanna eru ekki nægar
til þess að tryggja fullar endurheimtur.“
Í fjárlagafrumvarpinu sem lagt var fram í gær segir að miðað sé við að tekjur af bankaskatti dragist saman um 22,7 milljarða króna á árinu 2018, eða sem nemur um 1% af vergri landsframleiðslu. Reiknað er með að tekjur ríkissjóðs af skattinum á árinu 2018 verði 4,5 milljarðar króna.
Í frumvarpinu segir að rétt sé þó að hafa í huga að „mikil óvissa ríkir um framvindu mála hjá slitabúum föllnu viðskiptabankanna.“ Þá eru tekjuáhrif afnáms undanþágunnar af fyrirtækjum í slitameðferð þess eðlis að þau munu fjara út og þannig lækka tekjur af bankaskatti niður.