Hlutur svarta markaðarins eykst

Ferðamönnum fjölgar hraðar á Íslandi en annars staðar.
Ferðamönnum fjölgar hraðar á Íslandi en annars staðar. mbl.is/Golli

Fjölgun ferðamanna á Íslandi á síðastliðnum árum er gífurleg og yfir meðaltali annarra þjóða en gistinóttum fjölgar hins vegar hægar. Gæti það bent til þess að hlutur svarta markaðarins sé að aukast. 

Þetta var á meðal þess sem kom fram á fundi greiningardeildar Arion banka um horfur í ferðaþjónustu. Yfirskrift fundarins var „Flýtum okkur hægt en gerum það í snatri,“ og sagði Regína Bjarnadóttir, forstöðumaður greiningardeildarinnar að það lýsti stöðunni í ferðaþjónustu í dag þar sem greinin stækkar á ógnarhraða og vanda þarf við uppbyggingu innviða. Fjölgunin sé hins vegar að eiga sér stað í dag og því þurfi að hafa hraðar hendur.

Þrisvar sinnum fleiri en Íslendingar

Fram kom að methraði sé á fjölgun ferðamanna sem aldrei hafa verið fleiri og voru um 2,4 sinnum fleiri ferðamenn á landinu á árinu 2013 en allir Íslendingar til samans. Gert er ráð fyrir að ferðamenn verði um þrisvar sinnum fleiri á hverju ári en öll íslenska þjóðin samanlögð á næstunni. „Á heimsvísu eru ferðamennirnir að meðaltali um helmingi fleiri og er fjölgunin því mun meiri en annars staðar,“ sagði Regína.

Hún sagði það vekja athygli að gistinóttum fjölgar síður en ferðamönnum og mætti því gera ráð fyrir að fleiri væru til dæmis að nýta sér gistingu í heimahúsum á vegum netmiðla á borð Airb'n'b. Þá væri hægt að áætla miðað við tölur um fjölda ferðamanna að seldar hefðu verið um 200 þúsund gistinætur á svarta markaðnum og nemur hlutdeildin því um 6 prósent.

Dregur úr kortaveltu ferðamanna

Ferðaþjónustan er nýr burðarás hagvaxtar og var hún á árinu 2013 verðmætasta útflutningsgrein Íslendinga. Samkvæmt greiningardeildinni eru um fimmtungur þeirra starfa sem skapast hafa frá árinu 2008 tengd ferðaþjónustu og er þannig ljóst að hlutfall atvinnulausra hefði ekki lækkað jafn snögglega hefði ekki verið fyrir vöxt ferðaþjónustunnar.

Þá hafa tekjur af ferðamönnum vaxið um 15 til 20 prósent á síðastliðnum þremur árum og hafa aldrei verið meiri. En þrátt fyrir það vaxa þær hægar en ferðamönnum fjölgar. Þegar litið er til kortaveltu ferðamanna má sjá að hún hefur aukist verulega á undanförnum áratug en aftur á móti minnkað á síðastliðnum tveimur árum.

Regína sagði að erfitt væri að gera sér grein fyrir hvað valdi, þar sem lítið er til af gögnum þar um. Nefndi hún þó fjórar mögulegar ástæður. Í fyrsta lagi gæti hlutur svarta markaðarins verið að aukast en í öðru lagi værum við að laða til okkar ferðamenn sem eyða minna. Í þriðja lagi gæti verið að ferðamenn væru farnir að skipuleggja sig betur og panta ferðir í gegnum Internetið fram í tímann og það kæmi þá ekki fram hjá íslenskum kortafyrirtækjum. Í fjórða lagi nefndi hún að ferðamönnum fjölgaði hraðar á vetrartíma þegar ódýrara er að vera á landinu. Síðustu útskýringuna útilokaði hún þó snögglega aftur þar sem þeir dvelja að jafnaði fjórum dögum skemur, eða í 6 nætur að meðaltali samanborið við 10 nætur að sumri, en eyddu þó jafn miklu. 

Bretar eyða minnst miðað við fjölda

Þá var að lokum litið til þess hverrar þjóðar þeir væru sem eyddu mestu í verslunum hér á landi en þar voru Bandaríkjamenn með stærstan hlut og Norðmenn komu þeim fast á hæla. Væri hins vegar litið til hlutfalls eyðslunnar miðað við fjölda þeirra mátti sjá að Rússar, sem eru smávægilegt brot þeirra sem hingað koma, eru helst að spreða. Aftur á móti virtust Bretar helst halda að sér höndum en þeir voru um 18 prósent allra ferðamanna á síðasta ári en með einungis sjö prósent hlut.

Talið er að ferðamönnum muni halda áfram að fjölga á næstu árum. Gert er ráð fyrir að þeir verði um 960 þúsund á árinu 2014, 1,1 milljón á næsta ári, 1,2 milljónir árið 2016 en 1,3 milljónir árið 2017. Er þessi fjölgun meiri en gert er ráð fyrir annars staðar í heiminum. 

Þá eru líkur á að ferðamönnum fjölgi á veturna á næstu árum samkvæmt greiningardeildinni og er það að einhverju leyti góðri markaðssetningu með viðburðum á borð við Iceland Airwaves og Food and Fun að þakka að ógleymdum norðurljósunum 

Regína Bjarnadóttir forstöðumaður Greiningardeildar Arion banka
Regína Bjarnadóttir forstöðumaður Greiningardeildar Arion banka Ómar Óskarsson
Talið er að hlutur svarta markaðarins sé að aukast.
Talið er að hlutur svarta markaðarins sé að aukast. mbl.is/Ómar Óskarsson
Talið er að ferðamönnum yfir vetrartímann muni fjölga á næstu …
Talið er að ferðamönnum yfir vetrartímann muni fjölga á næstu árum. mbl.is/Golli
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK