Tilkynnt var í gær að þriðjungi starfsmanna franska dagblaðsins Libération yrðu sagt upp. Eru uppsagnirnar liður í að reyna að koma í veg fyrir að dagblaðið, sem, Jean-Paul Satre, stofnaði á sínum tíma, leggi upp laupana.
Alls verður 93 af 250 starfsmönnum sagt upp og eru þetta mestu uppsagnir í sögu blaðsins en það var stofnað árið 1973. Ritstjóri Libération, Laurent Joffrin, segir að þetta sé óumflýjanlegt ef bjarga eigi rekstri blaðsins. Vonast er til þess að rekstur blaðsins skili hagnaði á næsta ári. Eins verða höfuðstöðvar þess fluttar úr miðborg Parísar á ódýrara svæði.
Þurfa að skrifa upp á samning um að gagnrýna ekki stjórnendur opinberlega
Ritstjórn Libération verður endurskipulögð og skipt upp í tvær einingar, blaðamenn sem skrifa fyrir pappírsútgáfuna og þá sem skrifa fyrir vefinn. Allir starfsmenn, bæði ritstjórn sem aðrir, þurfa að skrifa undir nýjan samning þar sem þeim verður meðal annars bannað að gagnrýna stjórnendur miðilsins opinberlega.
„Libération tapar 22 þúsundum evra á dag, segir Johan Hufnagel, sem er aðstoðarritstjóri. „Við verðum að straumlínulaga framleiðslu ritstjórnarinnar,“ bætir hann við.