Föst í sírópi með skattabreytingar

Umtalsverðar breytingar verða gerðar á skattlagningu á ferðaþjónustuaðila á næsta …
Umtalsverðar breytingar verða gerðar á skattlagningu á ferðaþjónustuaðila á næsta ári. Sigurður Bogi Sævarsson

Fyrirvarinn á breytingum á virðisaukaskattkerfinu er alltof stuttur og ekki er tekið tillit til ferðaþjónustuaðila sem skipuleggja sig marga mánuði fram í tímann ásamt því að skortur er á jafnræði. „Ef við náum ekki að velta virðisaukanum út í verðlagið erum við að tala um 25 til 30 milljónir sem leggjast beint á fyrirtækið,“ segir Rannveig Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri hvalaskoðunarfyrirtækisins Eldingar.

Þetta kom fram á hádegisfundi Félags viðskipta- og hagfræðinga sem haldinn var á Grand Hótel í dag undir yfirskriftinni „Pína eða sjálfstætt framlag - Skattlagning í ferðaþjónustu.“

Samhliða framlagningu fjárlagafrumvarpsins í síðustu viku voru lagðar fram breytingar á virðisaukaskattkerfinu þar sem meðal annars stendur til að hækka neðra þrepið úr sjö í tólf prósent, lækka efra þrepið úr 25,5 prósentum í 24 prósent og afnema undanþágur vegna fólksflutninga í afþreyingarskyni. Breytingarnar á skattþrepunum taka gildi þann 1. janúar 2015 en undanþágurnar verða afnumdar þann 1. maí 2015 ef á fer sem horfir.

Búið að gefa upp verð fyrir næsta ár

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra talaði einnig á fundinum og sagðist gera sér grein fyrir að tímasetningin skipti miklu máli. „Það er erfitt að þurfa að sætta sig við það að þurfa að taka árið 2014 í undirbúning en þurfa síðan að bíða árið 2015 til þess að svona hlutir geti farið að virka árið 2016. Manni finnst sem maður sé að hreyfa sig í einhverju sírópi,“ segir hann. 

Rannveig sagðist sátt með að fyrrgreindir aðilar yrðu teknir inn í virðisaukaskattskerfið en ítrekaði að þetta væri þriðja árið í röð sem aðilar í ferðaþjónustu þyrftu að koma stjórnvöldum í skilning um hvernig þeir vinna. „Við erum að vinna tólf til átján mánuði fram í tímann. Sumir lengra. Það er búið að gefa út verðið fyrir næsta sumar og ég get lofað því að það eru hótel úti á landi sem eru uppbókuð. Það er því ekki hægt að velta þessu yfir á kúnnann heldur þurfa rekstraraðilar að taka þetta á sig,“ sagði hún og bætti við að það ætti í fyrsta lagi að vera í janúar 2016 sem breytingarnar ættu að taka gildi.  

Óskiljanlegt kerfi

Þá gerði hún athugasemd við flókið kerfi og sagði óskiljanlegt hvernig sumir aðilar stæðu fyrir utan það og aðrir ekki. „Hvers vegna eru leigubílar ekki í kerfinu? Þeir standa í fólksflutningum. Hvað með strætó og hvað með ferðir utan áætlunar, líkt og akstur á Justin Timberlake tónleika. Hvað með Bláa lónið? Það er ekki í VSK kerfinu heldur er það flokkað sem íþróttaiðkun,“ sagði hún og benti á fjölmarga aðra aðila. „Þetta kallar bara á eitthvað rugl og það að fólk leiðist út í að hagræða á milli skattþrepa. Þá þýðir ekki að byrja með skattheimtu án þess að vera með framtíðarsýn, sem ég get ekki séð að sé til staðar,“ sagði hún og vísaði til þess að ekki liggur fyrir hvernig standa á að uppbyggingu innviða ferðaþjónustunnar.

Bjarni sagðist taka undir sjónarmið Rannveigar að því leyti að skattstofninn gæti verið breiðari. „En ég tek hins vegar mark á þeim sem hafa verið að skoða málið fyrir mig allt þetta ár og benda á hvaða áhrif það myndi hafa á verðlag í landinu. Ég get til dæmis nefnt að flugmiðar innanlands eru mjög dýrir og ekki er mikið svigrúm til hækkunar,“ sagði hann.

Færi ekki allt á hliðina

Gert er ráð fyrir að afnám undanþágunnar skili um 300 milljónum króna í ríkiskassann á næsta ári og nefndi Bjarni að fjárlögin hljóðuðu á um 650 milljarða. „Það færi því ekki allt á hliðina ef við hliðrum eitthvað til. Við viljum hins vegar ekki fresta gildistöku breytinga sem við teljum tímabærar án þess að fyrir því séu mjög sterk rök.“

Rannveig Grétarsdóttir hjá Eldingu.
Rannveig Grétarsdóttir hjá Eldingu. Ernir Eyjólfsson
Fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson
Fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson KRISTINN INGVARSSON
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK