Kaupmáttur launa hækkaði um 3,5 prósent í júlí frá sama tíma í fyrra og er aukinn kaupmáttur með litlum launabreytingum talinn vísbending um að áherslur við gerð síðustu kjarasamninga hafi tekist nokkuð vel.
Þetta kemur fram í Hagsjá Landsbankans.
„Sé litið eitt ár til baka sést að kaupmáttaraukningin á ársgrundvelli í júlí á þessu ári var ríflega tvöföld miðað við sama tímabili í fyrra þrátt fyrir svipaðar launabreytingar, en mun betur hefur tekist að halda verðbólgunni í skefjum.“
Þá segir að launa- og kaupmáttarþróun hafi verið mun hagstæðari á almenna markaðnum á heilu ári en hjá opinberum starfsmönnum en athyglisvert sé hversu mikill munurinn er innan opinbera hópsins, þ.e. á milli starfsmanna ríkisins og starfsmanna sveitarfélaga. Þ„róun starfsmanna sveitarfélaga er síðri en ríkisstarfsmanna sem tekst að halda nokkuð vel í við almenna markaðinn á ársgrundvelli.“
Hvað einstakar starfsstéttir varðar hefur þjónustu- og afgreiðslufólk notið mestra kjarabóta og þar á eftir kemur skrifstofufólk og tæknar og sérmenntað fólk sé litið á heilt ár. Kaupmáttarþróun innan atvinnugreina hefur verið ærið mismunandi. Sé litið á stöðuna yfir heilt ár hefur kaupmáttur í byggingastarfsemi og mannvirkjagerð aukist mest og þvínæst í samgöngum og flutningum.
„Sé litið til umræðunnar um kjaramál gefa tölur Hagstofunnar ekki til kynna að laun stjórnenda hafi að jafnaði hækkað meira en hjá öðrum starfsstéttum. Að sama skapi er ekki hægt að segja að laun í fjármálaþjónustu séu að hækka meira en í öðrum greinum,“ segir í Hagsjánni. Þá segir að tölurnar undirstriki mikla breidd innan bæði hópa og atvinnugreina og kannski meiri meðal stjórnenda og innan fjármálaþjónustu en annars staðar.