Um þriðjungur þeirra 350 þúsund manna sem starfa í raftækjaverksmiðjum í Malasíu búa við nútímaþrælahald. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn sem bandarísk samtök um sanngjarna vinnu, Verne, framkvæmdu að beiðni bandarískra stjórnvalda. Þó svo að engin fyrirtæki séu nafngreind í rannsókninni eru allir helstu raftækjarisarnir með verksmiðjur þar í landi; Apple, Samsung, Sony o.fl.
Til þess að fá vinnu í verksmiðjunum þurfa vinnumenn oft að greiða með sér en gjaldið er jafnan greitt í formi vinnu. Leiðir þetta til þess að menn standa lengi í skuld við vinnuveitenda sinn og skapar valdaójafnvægi þannig að einstaklingurinn er í raun fastur í vinnunni.
Einkenni þrælahalds voru greind víðs vegar í iðnaðinum og féllu þar bæði konur og karlar undir og fólk af ýmsum þjóðernum en skýrslan var byggð á viðtölum við 501 mann sem vinna í verksmiðjum í Malasíu. Í skýrslunni segir að þrælahaldið sé víðtækt. 94 prósent aðspurðra þurftu að láta vinnuveitenda sinn hafa vegabréfið sitt þegar þau hófu störf og sögðust 71 prósent ekki hafa mátt fá það aftur.