Ekkert svigrúm til að lækka skatta

Létta þarf á vaxtabyrði svo unnt sé að lækka skatta.
Létta þarf á vaxtabyrði svo unnt sé að lækka skatta. Þorvaldur Örn Kristmundsson

Aukin skattbyrði frá hruni hefur að mestu leyti farið í greiðslu vaxtakostnaðar ríkissjóðs. Ef skuldir verða ekki greiddar niður á næstu árum skapast ekki svigrúm til að létta á skattbyrði atvinnulífsins og einstaklinga. Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu eru hins vegar engar horfur á breytingum.

Vaxtakostnaður er og verður á næstu árum samkvæmt áætlunum stjórnvalda um tólf til þrettán prósent af heildartekjum ríkissjóðs. „Gangi þessi áform eftir verður lítið svigrúm til að létta á skattbyrði. Enda er ekki verið að gera ráð fyrir verulegri lækkun skulda í krónum talið,“ sagði Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins, á morgunfundi á Grand hótel í morgun um framvindu og horfur í rekstri hins opinbera. Til þess að rjúfa vítahringinn segir hún ljóst að koma verði böndum á vöxt ríkisútgjalda og huga að frekari sölu ríkiseigna.

Aga skortir í ríkisfjármálum

Síðastliðin fimm ár hefur halli ríkissjóðs verið um eitt prósent af landsframleiðslu umfram það sem áætlanir fjárlaga segja til um. „Það er alveg ljóst að eftirfylgni fjárlaga er verulega ábótavant og aga skortir við afgreiðslu þeirra,“ segir Ásdís og bætir við að þetta skaði áætlanagerð og dragi úr trúverðugleika fjárlaga. „Án eftirfylgni eru metnaðarfullar áætlanir gagnlitlar.“

Minni tekjur skýra ekki framúrkeyrsluna í fjárlögum, sem nemur um 6 til 7 prósent af landsframleiðslu á hverju ári, þar sem tekjur hafa verið vanmetnar á síðastliðnum fimm árum. Þá felst skýringin ekki heldur í erfiðum rekstrarárum ríkissjóðs þar sem hlutfallið var það sama á þensluárum fyrir hrun og á árunum þar á eftir. Skýringin felst hins vegar í vexti útgjalda, sem koma þarf böndum á, segir Ásdís. „Nauðsynlegar endurbætur eru í raun tvíþættar. Í fyrsta lagi þarf að setja markvissar áætlanir um forgangsröðun og niðurskurð útgjalda og í öðru lagi þarf að auka eftirfylgni.“

Lögbundin útgjaldaregla

Að mati efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins væri góð lausn á vandanum að lögbinda útgjaldareglu samfara þeim breytingum sem boðaðar hafa verið í frumvarpi til laga um opinber fjármál, en samkvæmt frumvarpinu verður innleidd svokölluð fjármálaregla við stjórn ríkisfjármála er snýr að afkomu og skuldareglum. „Við teljum að það sé ekki verið að stíga skrefið til fulls, heldur þyrfti jafnframt að lögbinda útgjaldareglu sem myndi þvinga stjórnvöld til að halda sig innan ákveðins ramma.“

Nauðsynlegt að selja eignir

Þá benti Ásdís einnig á að nauðsynlegt væri að ráðast í frekari eignasölur til að grynnka á skuldum þar sem vaxtakostnaður verði að öðrum kosti of hár. Svokallaðar kreppuskuldir sem komu til á árunum eftir hrun vegna endurfjármögnunar seðlabankans og viðskiptabankanna auk uppsafnaðs greiðsluhalla á árunum 2008 og 2013 og lántöku vegna gjaldeyrisforða nema um áttatíu prósent af landsframleiðslu. Á bak við þær liggja þó eignir ríkisins í viðskiptabönkunum auk gjaldeyrisforða. „Í fjárlagafrumvarpinu sjáum við að vaxtakostnaður er orðinn mjög íþyngjandi og sláandi er að sjá að vaxtagjöldin séu orðin meðal stærstu útgjalda ríkisins.“

Hún sagði sölu 30 prósent eignarhluta í Landsbankanum til greiðslu skulda hafa óveruleg áhrif heldur ætti að athuga hvort selja mætti hluta gjaldeyrisforðans og fleiri eigna og nefndi þar til dæmis Landsvirkjun. 

„Það er ekki nóg að skuldahlutfallið sé að lækka samfara auknum umsvifum og verðbólgu heldur þarf einnig að finna leiðir til að greiða niður skuldir í krónum talið. Skuldastaða ríkissjóðs í dag er verulega viðkvæm og er hann illa í stakk búinn til að takast á við bakslag,“ seir Ásdís.

Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins.
Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins. Rósa Braga
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra við kynningu fjárlagafrumvarpsins.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra við kynningu fjárlagafrumvarpsins. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK