Hagvöxtur á fyrri helmingi ársins var 0,6 prósent og því minni en Seðlabankinn hafði spáð til um, þar sem reiknað var með 0,9 prósent vexti. Samsetning hagvaxtar er þá að breytast til verri vegar frá því í fyrra að mati greiningardeildar Íslandsbanka.
Hagvöxtur síðastliðins árs var þó ögn meiri en fyrri áætlanir gerðu ráð fyrir og mældist 3,5% á því ári en var 3,3% samkvæmt fyrri tölum. Kemur þetta fram í tölum sem Hagstofan birti í morgun og greiningardeild Íslandsbanka tók saman.
„Heilt á litið ættu þessar tölur ekki að breyta mati Seðlabankans á framleiðsluspennu og verðbólguhorfum að ráði. Tölurnar breyta þannig ekki afstöðu okkar um hvað peningastefnunefndin muni gera á vaxtaákvörðunarfundi sínum 1. október næstkomandi en við spáum því að peningastefnunefndin haldi stýrivöxtum bankans óbreyttum að þessu sinni,“ segir greiningardeild Íslandsbanka.
Þá segir að í spá Seðlabankans um 3,4% hagvöxt á árinu felist hins vegar talsvert mikill vöxtur á seinni helmingi ársins og í ljósi nýrra talna sé hugsanlegt að hagvöxturinn verði eitthvað minni en felst í báðum þessum spám.
Framlag utanríkisviðskipta til hagvaxtar var neikvætt á fyrri helmingi ársins og kemur það til af miklum vexti í innflutningi sem jókst um 9% á tímabilinu. Þar leiðir 11,9 vöxtur þjónustuinnflutnings vöxtinn, en vöruinnflutningur óx um 7,4% á tímabilinu. Útflutningur jókst um 3,7% á sama tíma, þar af vöruútflutningur um 4,6% og þjónustuútflutningur um 2,8%. Verri samsetning hagvaxtarins en í fyrra
Samkvæmt greiningardeild Íslandsbanka má segja að samsetning hagvaxtarins sé að breytast til verri vegar frá því í fyrra þegar hagvöxturinn var drifinn áfram af utanríkisviðskiptum. Þó sé jákvætt að fjárfestingar séu að taka við sér þótt vöxturinn í atvinnuvegafjárfestingu þyrfti að vera enn myndarlegri. „Áhyggjuefnið er hægari vöxtur í útflutningi og að hratt hefur dregið úr afgangi af viðskiptajöfnuði, en hann var mikill í fyrra eða 6,5% af landsframleiðslu.“
Þjóðarútgjöld jukust um 2,8% á fyrri árshelmingi þessa árs sem er nokkuð hraður vöxtur. Kemur það aðallega til af myndarlegum vexti einkaneyslu, sem jókst um 4% á tímabilinu, og síðan einnig hröðum vexti fjárfestinga sem nam um 7,8%.
Aukinn kraftur hefur verið að færast í vöxt einkaneyslu á þessu ári en einkaneyslan jókst einungis um 0,8% á síðastliðnu ári. Var vöxtur einkaneyslu sérstaklega hægur á fyrri hluta síðastliðins árs en ástæðan fyrir auknum vexti er m.a. aukinn vöxtur kaupmáttar launa sem jókst um 2,7% á fyrri helmingi þessa árs samanborið við 1,6% á sama tímabili í fyrra. Þá hefur hækkun húsnæðisverðs einnig bætt eiginfjárstöðu margra heimila og má vera að það ásamt væntingum um skuldaleiðréttingu verðtryggðra lána heimilanna sé að hafa áhrif, auk þess sem væntingar neytenda til efnahags- og atvinnuástands hafa batnað.