Það skiptir meira en fjóra af hverjum fimm Íslendingum máli að upplýsingar um upprunaland séu á umbúðum matvæla við ákvörðun um kaup. Þar af telur tæpur helmingur, eða 48 prósent, að það skipti miklu máli og rúmur þriðjungur, 35 prósent, að það skipti nokkru máli. Aðeins 17 prósent telja að það skipti litlu eða engu máli.
Þetta kemur fram í nýrri könnun Capacent Gallup fyrir Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins, Samtök verslunar og þjónustu, Samtök ferðaþjónustunnar, Bændasamtök Íslands og Neytendasamtökin sem eru í samstarfi um bættar upprunamerkingar matvæla. Yfirgnæfandi meirihluti Íslendinga telur að bæta þurfi upprunamerkingar.
„Það eru ákveðnar vörur sem er skylt að upprunamerkja og það er í farvatninu að bæta fleirum þar við, en mér sýnist hins vegar að bæði innlendir og erlendir framleiðendur séu farnir að merkja vörurnar betur að eigin frumkvæði,“ segir Lárur M.K. Ólafsson, lögfræðingur hjá Samtökum verslunar og þjónustu, í samtali við mbl.is. Hann segir að á Íslandi jafnt sem annars staðar hafi þessi mál verið í ákveðnum ólestri þar sem kröfur um upprunamerkingar hafi ekki verið til staðar. „En nú er verið að bæta við fleiri vörum sem skylt er að merkja og það er bara afleiðing af virku eftirliti í Evrópu þar sem komist hefur upp um svik í þessu,“ segir hann og bætir við að vinnan hjá SVÞ snúist um að taka á skarið á undan stjórnvöldum og upplýsa neytendur og framleiðendur betur.
Þá telja samkvæmt könnunninni rúmlega sjö af hverjum tíu landsmanna að það sé óásættanlegt að upprunaland hráefnis sé ekki getið á umbúðum unninna matvæla. Dæmi um slíkar afurðir eru innfluttar svínasíður, reyktar og sneiddar niður í t.d. beikon, en samkvæmt gildandi reglum telst land vera upprunaland ef umtalsverð umbreyting vörunnar hefur átt sér stað. Aðeins tíundi hver telur skort á upplýsingum vera að mestu eða öllu leyti vera í lagi.