Meirihluti bankaráðs Seðlabanka Íslands samþykkti á fundi sínum í gær að heimila ekki nú greiðslur málskostnaðar Más Guðmundssonar seðlabankastjóra með sérstakri ályktun. Bankaráðið mun því ekki samþykkja að gera málskostnaðinn að rekstrarkostnaði bankans.
Már mun því í samræmi við ákvörðunina greiða bankanum andvirði málskostnaðar hans.
Þetta kemur fram í tilkynningu sem er birt á vef Seðlabanka Íslands.
Málið snýst um kostnað vegna málsóknar Más gegn Seðlabankanum. Í júlí birti Ríkisendurskoðun útttekt á málskostnaðargreiðslum Más sem var gerð að beiðni bankaráðs SÍ. Meginniðurstaða Ríkisendurskoðunar var sú að Láru V. Júlíusdóttur, þáverandi formanni bankaráðs, hafi borið að bera þá ákvörðun undir ráðið að Seðlabankinn greiddi málskostnaðinn. Um þetta segir orðrétt í svari Ríkisendurskoðunar:
„Bankaráð hefur haft til umfjöllunar hvort greiðsla málskostnaðar Más Guðmundssonar, seðlabankastjóra, vegna dómsmáls sem hann rak varðandi framkvæmd úrskurðar kjararáðs frá 23. febrúar 2010 teljist rekstrarkostnaður bankans.“
Í tilkynningu sem fram kemur á vef SÍ í dag segir:
„Bankaráð hefur haft til umfjöllunar hvort greiðsla málskostnaðar Más Guðmundssonar, seðlabankastjóra, vegna dómsmáls sem hann rak varðandi framkvæmd úrskurðar kjararáðs frá 23. febrúar 2010 teljist rekstrarkostnaður bankans.
Í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá 30 júní s.l. kemur m.a. fram að hvorki lög um Seðlabanka Íslands né reglugerðir gera ráð fyrir að formaður bankaráðsins hafi sjálfstæðar valdheimildir. Bankaráðið er fjölskipað stjórnvald og þarf því að bera ákvarðanir um útgjöld, sem falla undir verksvið ráðsins, upp í bankaráðinu til formlegrar afgreiðslu. Þá kemur fram í úttektinni að fyrrum formaður hafði ekki formlega heimild bankaráðs þess tíma sem heimilaði greiðslu málskostnaðar seðlabankastjóra vegna fyrrgreindrar málsóknar.
Í ljósi efnisatriða málsins er það niðurstaða meirihluta bankaráðs að heimila ekki nú greiðslurnar með sérstakri ályktun. Bankaráðið mun því ekki samþykkja að gera málskostnaðinn að rekstrarkostnaði bankans.
Í bréfi dagsettu 11. júlí síðastliðinn til bankaráðs lýsti seðlabankastjóri því yfir að ef ákvörðun bankaráðs yrði þessi þá myndi hann greiða Seðlabankanum þennan útlagða kostnað. Hann mun því í samræmi við ofangreinda ákvörðun bankaráðs greiða bankanum andvirði málskostnaðar hans. Telur bankaráðið því ekki tilefni til frekari umfjöllunar um þetta álitamál.“
Í tilefni af samþykkt bankaráðs óskaði minnihluti ráðsins eftir sérstakri bókun sem hér fylgir: Bókun minnihluta bankaráðs.pdf
Bréf seðlabankastjóra til bankaráðs Seðlabankans 11. júlí 2014 fylgir hér með: Bréf seðlabankastjóra til bankaráðs Seðlabanka Íslands 11. júlí 2014.pdf
Yfirlit yfir framkvæmd á úrskurðum kjararáðs, 23. febrúar 2010, varðandi laun og önnur starfskjör forstjóra og forstöðumanna: Framkvæmd á úrskurðum kjararáðs 23. febrúar 2010.pdf