Metlækkun á flugfargjöldum til útlanda ásamt óvenju vægum áhrifum útsöluloka eru helstu ástæður þess að vísitala neysluverðs (VNV) lækkaði um 0,12% í september, og það þrátt fyrir talsverða hækkun á húsnæðisverði. Þetta kemur fram í Morgunkorni Greiningar Íslandsbanka.
„Óhætt er að segja að septemberlækkun VNV komi á óvart, enda höfðu spár legið á bilinu 0,2% - 0,3% hækkun, þar sem við spáðum 0,2% hækkun. 12 mánaða taktur verðbólgu lækkar við þetta úr 2,2% í ágúst í 1,8% í september, og hefur verðbólga ekki verið minni síðan í janúar 2011. Verðbólga án húsnæðis mælist nú 0,4%, og hefur ekki verið minni síðan í ágúst 2005. Verðbólga nú er því fyrst og fremst drifin áfram af umtalsverðri hækkun húsnæðisverðs,“ segir í Morgunkorninu.
Flugliður VNV lækkaði um ríflega fjórðung (-0,5% í VNV) þrátt fyrir 13% hækkun á flugfargjöldum innanlands. Þessu veldur metlækkun flugfargjalda til útlanda, en þau lækkuðu um tæp 29% í september.
Ljóst þykir að hér sé um árstíðarsveiflu að ræða að stórum hluta, þar sem háannatími ferðaþjónustu er að baki. Einnig hefur eldsneytisverð á heimsmarkaði lækkað nokkuð. „Við teljum því ólíklegt að þessi lækkun gangi að fullu til baka í októbermælingu VNV, þótt við sjáum líklega talsverða hækkun í liðnum þá.“