Forsvarsmenn Icelandair Group, Bláa Lónið, Landsbankinn hf. og Meet in Reykjavík undirrituðu í dag stefnumarkandi samkomulag um stofnun, fjármögnun og rekstur sérverkefnis á sviði markaðssetningar á Reykjavík og Íslandi sem áfangastað fyrir lúxusferðamenn sem verði hýst og stjórnað sem sjálfstæðri einingu innan Meet in Reykjavík.
„Markmiðið er að stuðla að langtímastefnumörkun á þessu sviði, styrkja ímynd Reykjavíkur og Íslands í augum vel stæðra ferðamanna, auka samtakamátt fyrirtækja sem starfa á þessum markaði og hvetja til þróunar innviða og þjónustuframboðs fyrir þennan mikilvæga markhóp.
Að mati þessara fyrirtækja er nýsköpun og vöruþróun ásamt markaðssetningu nauðsynleg til að stuðla að því að fjölbreyttari hópur gesta, vilji sækja Ísland heim í ríkara mæli. Vel stæðir ferðamenn sem eru tilbúnir til að greiða umtalsvert hærra gjald fyrir þjónustu munu verða til að auka arðsemi í ferðaþjónustu auk þess sem þeir ferðast gjarnan utan háannatíma, þannig að nýting innviða verður betri yfir allt árið.
Af þessum ástæðum hafa þessir kröftugu samstarfsaðilar stigið metnaðarfullt og ábyrgt skref í dag og lagt grunn að markvissri sókn með aukinni samvinnu á þessum markaði. Samstarfið er framhald af þeirri uppbyggingu sem hófst með stofnun Meet in Reykjavík árið 2012 og mun styrkja innviði þeirrar starfsemi enn frekar. Þar hafa komið saman fjöldi fyrirtækja ásamt kjölfestuaðilum eins og Reykjavíkurborg, Icelandair Group og Hörpu og náð umtalsverðum árangri á funda-, ráðstefnu-, hvataferða- og viðburðamarkaði. Sérhópar sem þessir sem og vel stæðir ferðmenn eru eftirsóttir um allan heim og mikilvægt að Ísland nái til þeirra í ríkari mæli en verið hefur.
Samkomulagið er til þriggja ára og gert er ráð fyrir fjölgun samstarfsaðila að verkefninu sem þjónusta þennan markað með svipuðu fyrirkomulagi og nú þegar er til staðar hjá Meet in Reykjavík,“ segir í tilkynningu.