Mælir með flötum 21% vaski

Ríkisstjórnin ætti að hækka neðra virðisaukaskattþrepið í 14% að mati Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) en það er í dag í 7%. Þá ætti að lækka efra skattþrepið eins mikið og staða ríkissjóðs gefur tilefni til. Til lengri tíma ætti að stefna að einu skattþrepi og mælir sjóðurinn með 21% flötum virðisaukaskatti.

Þetta kemur fram í skýrslu AGS um íslenska virðisaukaskattkerfið sem ber heitið „Modernizing the Icelandic VAT“ og unnin var að beiðni íslenskra stjórnvalda. Skýrslan var birt í gær. AGS tekur fram að þær aðgerðir sem ríkisstjórnin hafi þegar kynnt til sögunnar séu í góðu samræmi við fyrri ráðleggingar sjóðsins. AGS ítrekar það álit sitt að afleggja ætti allar undanþágur innan kerfisins. Í það minnsta í ferðaþjónustu, samgöngumálum, íþróttamálum og menningarmálum. 

Því til viðbótar telur AGS rétt að undanþága frá skráningarskyldu á virðisaukaskattskrá vegna aðila með óverulegan rekstur verði miðuð við 2 milljónir króna en miðað er við eina milljón ein og staðan er í dag. Fram kemur í skýrslunni að hærra viðmið minnki álag á stjórnsýsluna og starfsmenn Ríkisskattstjóra geti þá lagt áherslu á stærri aðila sem skili meiri skatttekjum.

Ennfremur telur AGS að stjórnvöld ættu að skattleggja að fullu sölu og leigu á atvinnuhúsnæði og fyrstu sölu á íbúðarhúsnæði. Sömuleiðis að sérstakar endurgreiðslur vegna hópferðabifreiða, skipa og flugvéla í innanlandssamgöngum verði felldar úr gildi sem og endurgreiðslur á vörugjöldum vegna innflutning á bílaleigubílum.

Þá mælir AGS með því að almenn vörugjöld verði afnumin af byggingarefni, heimilistækjum og raftækjum. Verði vörugjöld á sykraðar vörur ekki felld niður telur sjóðurinn rétt að tryggja að álagning þeirra stuðli raunverulega að minni neyslu á sykri. Hinn möguleikinn sé að vörugjöldin verði afnumin og hæsta virðisaukaskattþrepið látið ná til slíkra vara.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK